Starfsmenntun í atvinnulífinu

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 16:24:00 (5459)


     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Við fulltrúar Framsfl. í félmn., ég og hv. 2. þm. Vesturl., Ingibjörg Pálmadóttir, höfum skrifað undir álit meiri hluta félmn. með fyrirvara. Sá fyrirvari var vegna þess að við höfum lagt á það höfuðáherslu að sú starfsmenntun, sem hér um ræðir, komi aðallega ófaglærðu fólki til góða. Við óttumst að sá starfsmenntunarsjóður, sem gert er ráð fyrir, verði lítilsmegnugur ef á hann er lagt að standa undir allri starfs- og endurmenntun hverju nafni sem hún nefnist. Það er reyndar tekið fram í nál. að það sé skilningur meiri hluta nefndarinnar og er það mjög til bóta. Þar segir: ,,Meiri hluti nefndarinnar leggur á það áherslu að mikilvægt sé að sú starfsmenntun, sem frv. á að stuðla að, komi ekki síst ófaglærðu fólki til góða.`` Við teljum þetta mikilvægt og í ljósi þess sem fram hefur komið, að frv. byggist á samkomulagi milli aðila m.a. verkalýðshreyfingarinnar í landinu, og einnig á samkomulagi milli ráðuneyta sem nokkur undirbúningsvinna var lögð í að ná þessu samkomulagi áður en frv. var lagt fram, höfum við ákveðið að flytja ekki brtt. við frv. en láta nægja að ítreka þessa fyrirvara okkar við þessa umræðu. Við stöndum að brtt. meiri hlutans á þskj. 745. En á þskj. 755 hefur hv. 10. þm. Reykv. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir flutt tvær brtt. Við erum andvíg fyrsta hlutanum á þeim forsendum að það mál sem þar um ræðir byggist á vissu samkomulagi sem tókst þar um og við teljum ekki ástæðu til að breyta þar um vegna þess að í fiskvinnslunni hefur verið rekin öflug starfsmenntun. En við teljum geta komið til greina að styðja brtt. við 5. gr.
    Ég ætla ekki að orðlengja um þetta frekar. Við höfum staðið að þessari vinnu og munum samþykkja frv. með þeim formerkjum sem ég hef gert hér grein fyrir.