Starfsmenntun í atvinnulífinu

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 16:47:00 (5464)


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Út af þeim orðum sem hér hafa fallið um nauðsyn upplýsingamiðlunar milli menntmrn. og félmrn. vegna þessa máls og þá kannski líka vegna brtt. sem liggur fyrir frá hv. 10. þm. Reykv. þess efnis að fulltrúi menntmrn. taki sæti í starfsmenntunarráði, vil ég benda á að um þessa upplýsingamiðlun milli ráðuneytanna var fjallað í viðræðum sem fóru fram milli ráðuneytanna um þetta mál þegar frv. var á vinnslustigi. Niðurstaðan þá milli ráðuneytanna varð, og kemur fram í fskj. með þessu frv. sem er til umræðu, en þar segir, með leyfi forseta: ,,Eins og áður er komið fram leggur viðræðunefndin til að fullorðinsfræðslan og starfsmenntun í atvinnulífinu verði tengd með skipan fullorðinsfræðsluráðs. Ráðið verði vettvangur upplýsingamiðlunar um menntunarframboð fyrir fullorðna.`` Ég tel að ef tenging þarf að vera þarna á milli varðandi upplýsingamiðlun milli ráðuneytanna í þessu máli sé eðlilegra gerist það á þeim vettvangi, í fullorðinsfræðsluráðinu.