Húsaleigulög

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 17:26:00 (5469)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka góðar undirtektir sem þetta frv. hefur fengið og vona að þær gefi tilefni til að ætla að málið geti fengið greiða ferð í gegnum þingið. Vissulega er um ítarlegan lagabálk að ræða og hann þarf örugglega nokkra umfjöllun í nefnd en engu að síður vona ég að hægt sé að lögfesta frv. á þessu vori.
    Varðandi þá spurningu sem til mín var beint af hv. 18. þm. Reykv. hvort framboð hafi aukist á leiguíbúðum og hvort málefnum leigjenda sé betur sinnt af sveitarfélögunum þá vil ég svara báðum þessum spurningum játandi, það er mitt mat. Ég vil rifja upp að á árunum 1980--1987 voru mjög fáar leiguíbúðir byggðar, þær voru innan við 100 á þessu sjö ára tímabili á öllu landinu. En það hefur orðið hér veruleg breyting á. Ég er ekki með tölurnar við höndina en á undanförnum árum hefur fjölgunin orðið það mikil að aukningin hefur skipt einhverjum hundruðum þannig að veruleg breyting hefur orðið á enda mátt það svo sannarlega verða. Það er svo að nokkuð stór hópur í þjóðfélaginu er ekki fær um að festa sér kaup á íbúð á almennum markaði og oft ekki einu sinni í félagslega íbúðakerfinu, hann á þá ekki fyrir þeirri útborgun sem þar er. Þess vegna er nauðsynlegt að til sé öflugur leigumarkaður.
    Varðandi stuðning við leigusala sem rætt hefur verið í nefndinni sem starfaði 1990 þá er það enn til umræðu og er til umræðu í þeirri nefnd sem fjallar um aðstoð við leigjendur. Þar er m.a. einn þáttur sem er verið að ræða sem að finna leið til að auka framboð á leiguhúsnæði. Þá er m.a. verið að skoða hvort rétt sé að fara inn í einhvers konar afslátt til leigusala, t.d. varðandi eignarskatta, þannig að þetta er áfram til skoðunar í þeirri nefnd sem enn starfar að því að vinna að tillögum og úrbótum til aðstoðar við leigjendur.