Fæðingarheimili Reykjavíkur

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 15:58:00 (5503)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Þeir stjórnarliðar sem hér hafa talað verða tæpast sakaðir um að tala skýrt. Þó tók nú eiginlega steininn úr þegar hv. 3. þm. Suðurl., Árni Johnsen, kom með einhverja sérkennilega loðmullu um að nú ætti að koma upp sérstakri þjónustu á Landspítalanum til þess að mæta því að Fæðingarheimilið er lagt niður. Þetta höfum við svo sem heyrt áður. Við höfum heyrt þetta frá hæstv. heilbr.- og trmrh. sem segir að þjónustusérstaðan verði tryggð með því að koma upp sérstakri fæðingarstofu á Landspítalanum. En stofnun er bara ekki fjórir veggir og þau tól og tæki sem þar eru innan dyra, hún er svo margt annað. Hún er andi, hún er hugmynd, hún er stefna. Það er það sem við konur viljum varðveita á Fæðingarheimili Reykjavíkur.
    Um 70 milljón krónurnar get ég líka sagt honum sitthvað en þar af eru m.a. 12 millj. kr. sem voru settar í viðhald til þess að þarna mætti reka áfram fæðingarstofnun.
    Forsrh. kom upp og notaði það sem einhvers konar rök fyrir dugleysi sínu í þessu máli að fæðingum hefði fækkað jafnt og þétt. Þetta er bara ekki rétt. Fæðingum hefur fjölgað verulega. Árið 1985 voru 2.093 fæðingar á fæðingardeildinni, 2.800 á síðasta ári. Á Fæðingarheimilinu voru þá 336 fæðingar, 464 á síðasta ári. Þegar hæstv. forsrh. tók þá ákvörðun og gaf það loforð að Fæðingarheimilið skyldi rekið áfram tók hann þá ákvörðun á þeirri forsendu að árið 1989 hefðu fæðingar verið 337. Þeim hefur fjölgað um 130 síðan. Þannig að hafi það loforð stuðst við eitthvað þá, gerir það það líka núna. Það hefur ekkert breyst, hæstv. forsrh.
    Forsrh. talaði á þá lund að engin endanleg ákvörðun væri tekin. Við þingmenn höfum bréf upp á vasann sem sýna það að hæstv. heilbr.- og trmrh. er a.m.k. búinn að taka ákvörðun í þessu máli. Ég held líka að engum sé greiði gerður með því að láta þetta mál malla áfram. Það er ekki til annars en að þreyta starfsfólk, að þreyta konur og velunnara heimilisins. Það er tilgangurinn, að þreyta fólk þannig að það gefst upp á að standa vörð um þetta heimili sem hefur orðið fyrir síendurteknum árásum. Og nú skal ég segja hæstv. forsrh. það að mér er alveg sama hvaða pólitíska spilverk er í gangi hverju sinni og hefur verið í gangi í kringum Fæðingarheimilið, málið er að stofnunin fái að lifa vegna þess að þetta er merk stofnun og ég er sannfærð um að menn sjá það fyrr en síðar að það sparast ekki á því að leggja hana niður. Það eru vondir ráðgjafar sem segja mönnum það.
    Og nú ætla ég að skora á þessa menn sem engin svör vildu gefa hérna að þeir kalli á sinn fund starfsfólk og velunnara heimilisins, ræði málin við þetta fólk ofan í kjölinn og heyri rökin, því það er mér ekki kunnugt um það þeir hafi gert. Þeir hafa ekki farið til þessa fólks og heyrt rök þess. Og nú skora ég á þá að þeir geri það hið fyrsta, kalli fulltrúa og velunnara heimilisins og starfsfólkið á sinn fund og ræði

þessi mál.