Fæðingarheimili Reykjavíkur

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 16:02:00 (5504)


     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Herra forseti. Það er alveg rétt að við eigum í miklum erfiðleikum með mörg mál í því fjársvelti sem ríkissjóður er í nú og ekki síst í heilbrigðismálum. Ég hef miklar áhyggjur af því að það sé ekki hægt að taka við öldruðu fólki til hvíldarinnlagnar. Ég hef miklar áhyggjur af því að loka verði deildum fyrir aldrað fólk. Ég hef miklar áhyggjur af því að loka verði bæklunardeild tímabundið.
    Það mál sem við erum að ræða nú er ekki eitt af stærstu áhyggjumálum mínum í þessu sambandi, því að ekki stendur til að skerða þessa þjónustu. Það sem stendur til er að reyna að bjóða upp á sömu þjónustu með því að innrétta á fæðingardeild Landspítalans sams konar aðstöðu til fæðingarhjálpar og á sér stað á Fæðingarheimili Reykjavíkur. Það sem ég hef rætt um við ríkisspítalamenn --- og ég veit að þeim er fyllilega ljóst og munu reyna að hegða sér þannig eins og komið hefur í ljós undanfarna daga --- er að gera ekki ráð fyrir því að nein þjónusta leggist af innan fjögurra veggja Fæðingarheimilis Reykjavíkur nema hægt sé að bjóða aðra jafngóða og sams konar á fæðingardeild Landspítalans. Og það sem ég er einnig alveg sannfærður um er að stjórnendur Ríkisspítala muni leita til starfsfólks Fæðingarheimilisins til þess að tryggja að sú þjónusta sem standi í boði á fæðingardeildinni í framtíðinni, verði veitt við sömu aðstæður og vonandi að verulegu leyti af sama fólki og nú veitir þessa þjónustu á Fæðingarheimilinu.
    Ég tók það fram, ég talaði ekki um tvíverknað í því sambandi, ég talaði um tvöfalt vaktkerfi á tveimur stofnunum sem veita sömu þjónustu og eru staðsettar sitt hvoru megin við sömu götu. Ég held að það hljóti að skiljast hvað átt er við með því. Það er líka sjálfsagt að upplýsa að þær 30 millj. kr. sem gert er ráð fyrir að reksturinn kosti til viðbótar hjá fæðingardeild Landspítalans er ekki bara rekstur Fæðingarheimilisins, heldur sá kostnaður að reka á vegum Landspítalans þá sömu þjónustu og í dag er veitt á þessum tveimur stofnunum. Það er hægt að veita þessa sömu þjónustu fyrir 28 millj. kr. lægri fjárveitingu. ( GHelg: Það er ekki satt.) Jú, það er víst satt. Það er sú niðurstaða heilbrrn. og Ríkisspítalanna sem samþykkt var þegar Ríkisspítalarnir yfirtóku rekstur Fæðingarheimilisins af Borgarspítalanum. Niðurstaðan er sú að þar sem áður fyrr voru 25 stöðugildi þarf Landspítalinn ekki að bæta við nema 7--10 til að geta tryggt sambærilega þjónustu og áður var veitt. Það er auðvitað meginmálið. Það er ekkert eftirsóknarvert í sjálfu sér að borga einhverja milljónatugi meira en þarf fyrir sömu eða sambærilega þjónustu. Það sem við erum að tala um er að veita sömu þjónustu fyrir minna fé. Ef það er hægt, er það skylda þeirra sem fara með fjármál, hvort sem það er heilbrrh., fjmrh. eða forsrh., að beita sér fyrir því að fyllsta hagræðis sé gætt án þess að dregið sé úr þjónustu.
    Virðulegi forseti. Ég vildi gjarnan geta sagt hið sama um ýmsa aðra þætti í rekstri heilbrigðiskerfisins. Það hefur okkur ekki tekist eins og okkur mun takast í þessu sambandi, þ.e. að veita jafngóða þjónustu fyrir minna fé. Vissulega er ástæða til þess, ef menn geta veitt sömu þjónustu fyrir minna fé, hvort sem er í heilbrigðisþjónustunni eða annars staðar, að menn geri það þá. --- [Fundarhlé.]