Barnalög

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 22:04:00 (5509)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í tilefni af þeim orðum sem fram komu hjá hv. 9. þm. Reykv. og því sem hann sagði um sameiginlegu forsjána og þær umsagnir sem nefndinni bárust vil ég taka undir allar útleggingar hans á þeim umsögnum enda eru þær réttar og ekkert um það að villast að aðilar telja mjög æskilegt að um leið og sameiginleg forsjá verði komin í lög verði fjölskylduráðgjöf efld. Þegar þessir aðilar eða fulltrúar þeirra komu á fund nefndarinnar var spurning lögð fyrir þá um það hvort þeir teldu að fresta ætti ákvæðunum í frv. um sameiginlega forsjá þangað til fjölskylduráðgjöf væri komin til sögunnar. Svörin voru öll á þann veg að þeir teldu að það ætti ekki að gera það og þeir svöruðu á þann veg að þótt fjölskylduráðgjöfin væri mikilvæg teldu þeir mikilvægara að þessi ákvæði kæmust inn og yrðu að lögum.
    Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að ég var með svipaðar efasemdir og hv. síðasti ræðumaður um þessi mál þegar starfið í nefndinni hófst. En eftir að hafa hlustað á alla þá fulltrúa sem komu á fund nefndarinnar, því eins og kemur fram í meirihlutaálitinu kom fjöldi manns á fundi, féll ég frá því að hafa fyrrvara varðandi sameiginlega forsjá.