Ráðning þjóðminjavarðar

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 14:25:00 (5543)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Engin rök hafa komið fram í málinu af hverju Guðmundur Magnússon er ráðinn þjóðminjavörður nema tillaga að rökum í frammíkalli hjá formanni þingflokks Alþfl. um að menn þyrftu að vera fallkandídatar í stjórnarflokkunum, þ.e. Sjálfstfl., til þess að ná virðingarembættum af þessu tagi. Það er athyglisvert að í svari sínu upplýsti hæstv. menntmrh. að Alþfl. stæði ekki að þessari ráðstöfun og þess vegna er óhjákvæmilegt að láta reyna frekar á þetta mál í umræðum á Alþingi núna næstu dagana vegna þess að ljóst er að hér er hæstv. menntmrh. bersýnilega í mjög krappri stöðu og því máli verður að fylgja eftir, sérstaklega á grundvelli þessarar athugasemdar hv. 17. þm. Reykv., formanns þingflokks Alþfl.
    Einnig komið fram, og er það mjög mikilvægt og ég get einnig staðfest það, að aldrei var rætt við Lilju Árnadóttur safnstjóra. Hver er hún? Hún hefur starfað við Þjóðminjasafnið í 14 ár. Hefur hún próf, háskólapróf? Já, hún hefur háskólapróf --- í hverju? Hún hefur háskólapróf í fornleifafræði og þjóðháttafræði. Af hverju er henni hafnað með þessum hætti? Það er rétt hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að í rauninni ber henni embættið og hún gæti sest inn í það hvenær sem er.
    Ég held að einnig sé mjög mikilvægt að mótmæla því sem kom fram hjá hæstv. menntmrh. að engin fagleg gagnrýni hafi komið fram á þessa ákvörðun fyrr en nú. Það er rangt. Fagleg gagnrýni hefur mjög ákveðið komið fram í þessu efni frá Félagi ísl. fræða sem er fagfélag þeirra manna sem starfa í Þjóðminjasafninu. Félag íslenskra fræða gagnrýnir einnig hin gerræðislegu vinnubrögð í málinu þannig að það er auðvitað alveg augljóst að mjög alvarleg gagnrýni hefur komið fram.
    Út af því sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði þá er það mjög athyglisvert hvernig að þessum málum er staðið hjá Sjálfstfl., hvernig trúnaðarmenn hans af ýmsu tagi sem beita sér fyrir einkavæðingu og svokölluðu frelsi á öllum sviðum gera allt sem þeir geta til þess að koma sér ævinlega á spena hjá ríkinu í öruggar stöður. Það er mjög fróðlegt til umhugsunar einmitt við þessa embættisveitingu sem hér er um að ræða.
    Ég held, virðulegi forseti, að alveg óhjákvæmilegt sé í framhaldi af umræðunni að beita sér fyrir því að flutt verði á Alþingi frv. til laga um að breyta öllum lögum um menningarstofnanir þannig að skilyrðislaust verði þess krafist að faglegar stofnanir fjalli um veitingar æðstu embætta, faglegar stofnanir þannig að gerræðisleg vinnubrögð eins og þau sem menntmrh. hefur sýnt í þessu máli eigi sér aldrei framar stað. Ég viðurkenni að það voru mistök af okkur í síðustu ríkisstjórn að svipta ekki menntmrh. valdi við veitingu á æðstu embættum í menningarstofnunum eins og við gerðum í háskólastofnunum. En það gerðum við ekki vegna þess að okkur datt ekki í hug að menn ættu í sínum ranni aðra eins ósvífni og þá sem Sjálfstfl. hefur sýnt í þessu máli.