Efling íþróttaiðkunar kvenna

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 15:22:00 (5551)


     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. 15. þm. Reykv. að lemja jafnólíkan hóp saman eins og fjórtán konur á Alþingi eru. Það er visst íþróttaafrek í mínum huga. Það eitt er nægjanlegt til þess að maður getur glaður skrifað undir tillögu sem þessa þótt það séu kannski eitt eða tvö atriði í greinargerð sem maður hefði viljað hafa öðruvísi. En hvers vegna erum við konur á Alþingi tilbúnar að skrifa undir slíka tillögu? Það er vegna þess að kvennaíþróttum almennt er ekki nógur gaumur gefinn. Þrátt fyrir að hv. 5. þm. Reykv. nýti sína hádegismatartíma svo vel eins og hann sagði okkur frá áðan og horfir á kvennaknattspyrnuna þá er hann einn af fáum sem gerir það. Það er svo langt frá því að kvennaíþróttum sé gert jafnhátt undir höfði og karlaíþróttum. Tökum t.d. val á íþróttamanni ársins. Loksins núna síðast var Ragnhildur Runólfsdóttir, sundkona valin íþróttamaður ársins. Hún hefði átt þetta skilið fyrir mörgum árum. En hún þurfti að vera tvöfalt, þrefalt betri en þeir sem í vali voru til að fá þennan titil. Ég fullyrði það. Það eru ein 26 eða 27 ár síðan kona var valin þar á undan sem íþróttamaður ársins í næstum 40 ára sögu þessa fræga bikars. Þetta getur ekki verið eðlilegt. Ég hef fylgst með kvennaknattspyrnu í 15 ár og ég sé þær gífurlegu framfarir sem stúlkurnar hafa sýnt á þessum árum og eru orðnar stórkostlegir íþróttamenn. Svo þegar kemur að úrslitaleikjum, t.d. bikarúrslitaleikjum kvenna og úrslitaleik á íslandsmeistaramóti, hvar fara þeir leikir fram? Ekki á aðalvellinum í Laugardal. Nei, það er á einhverjum smávöllum hér og þar. Maður finnur stundum ekki völlinn sem maður er að fara á vegna þess að þetta er aldrei á aðalvellinum í Laugardal. Það er þetta hugarfar sem er svo merkilegt. Og þessu hugarfari þurfum við að breyta og við konur eigum náttúrlega ekki að sætta okkur við þetta. Fari maður aftur á móti á bikarúrslitaleik hjá körlum er náttúrlega lúðrasveit og allt tilheyrandi. Það er nefnilega viss múgæsing og stemning í kringum þetta og við þurfum að ná þessum múgæsingi upp til að ná því sama og karlarnir. Ég held að þessi múgæsing sem hefur orðið hjá konum á hv. Alþingi sé fyrsta skrefið sem kannski fleytir okkur svolítið áfram.
    Hv. 3. þm. Reykn. sagði að hann skildi ekki almennilega hvernig ríkið ætti að koma inn í þetta. Það er svo sem alveg rétt hjá honum eins og núv. fyrirkomulag er að þá er ríkið hvergi inni í þessu vegna þess að búið er að eyðileggja Íþróttasjóð, búið að lama hann eins og hv. 5. þm. Reykv. kom líka inn á. En við bara eflum hann, við höfum tækifæri til þess. Og eftir þær umræður sem hafa farið fram í dag er ábyggilega meiri hluti fyrir því að efla Íþróttasjóð. Heildarfjármagn til íþróttanna verður þá meira og þá verður auðvitað meira til skiptanna.
    Það er alveg hárrétt sem þeir sögðu, hv. 3. þm. Reykv. og 5. þm. Reykv., að fjármagnið til keppnisíþrótta kemur úr karlagreinunum, ég viðurkenni það svo fúslega. En það er líka út af því sem ég var að segja. Það eitt hefur mikið að segja upp á aðsókn að leikur fari fram á aðalleikvanginum í Laugardal. Hv. 5. þm. Reykv. hristir höfuðið en þetta er eitt af því sem hefur mikið að segja. Völlurinn sem spilað er á skiptir miklu máli t.d. upp á það að fá fjölmiðla á leik.
    Það er rétt sem fram hefur komið að fjármagnið kemur frá körlunum og kvennaíþróttirnar hafa þurft að þiggja fjármagn frá þeim. Það er náttúrlega ekki gott mál og þess vegna er svo mikilvægt að efla Íþróttasjóð til að meira fjármagn sé í pottinum. Íþróttir almennt eru náttúrlega besta forvarnastarf sem hægt er að hugsa sér. 7. apríl var dagur hjartaverndar og þá er einmitt verið að minna fólk á mikilvægi hreyfingar. Um leið og fólk stundar íþróttir þá hættir það flest að langa til að reykja, og það breytir mataræði sínu þannig að þetta er keðjuverkandi og gefur fólki miklu betri og lengri lífsmöguleika. Þótt einhverju sé kostað til íþrótta kemur það svo margfalt aftur í budduna í betra heilsufari Íslendinga. Ég ætla bara að biðja karlmenn á Alþingi að láta sér ekki detta í hug að við viljum taka neitt frá þeim. Það er nú eitthvað annað. Ekki veitir þeim af að stunda íþróttir. Og meira að segja í miklu meira mæli en þeir gera. Ég væri tilbúin, ef þeir væru með þáltill. um að efla íþróttaiðkun karla, að skrifa undir hana eins og skot. ( Gripið fram í: Ertu með einhvern sérstakan í huga?) Ég er með ykkur alla í huga og það er enginn einn sérstakur hér svo sérstakur að ég hafi hann sérstaklega í huga. Ég vona að tillagan verði einmitt til að auka umræðu um mikilvægi íþrótta, ekki bara íþróttir kvenna heldur karla líka.