EES-samningur og íslensk stjórnskipun

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 16:21:00 (5558)


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að lýsa því yfir að ég tek undir þessa tillögu og vona að hún verði samþykkt sem fyrst á Alþingi. Það er alger nauðsyn að úttekt, eins og sú sem gert er ráð fyrir í tillögunni, fari fram og vil ég lýsa því yfir að ég tel það alls ekki fullnægjandi að einhverjir ótilgreindir sérfræðingar, reyndar á vegum utanrrn. og EFTA, hafi gert könnun á þessu máli. Það þarf að gera hana á Íslandi. Við þurfum sjálf að skipa menn í nefnd til að kanna þetta og það hlýtur að vera öllum kappsmál að ekki sé nokkur vafi á því að samningurinn standist stjórnarskrá ef hann verður staðfestur á Alþingi. Það mega ekki vera nokkrar líkur á því að við séum að samþykkja lög á Alþingi sem stangast á við stjórnarskrána.
    Ég hef löngum haft miklar efasemdir um að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði, eins og hann leit út fyrst þegar við sáum hann, reyndar á ensku, stæðist íslenska stjórnskipan. Þó er ég auðvitað ekki sérfræðingur á þessu sviði og hef einungis getað notfært mér þá sérfræðinga sem hafa talað í þessu máli sem og að lesa sjálf stjórnarskrána og meta út frá því sem menn hafa sagt hvort hætta sé á að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði stangist á við stjórnarskrána.
    Það kom fram í máli hv. 1. flm. að margir hafa haft efasemdir og einnig er vitnað til þess í greinargerð með tillögunni og fskj. að fram hafa komið ýmsar efasemdir og hef ég verið ein af þeim sem hafa viljað að málið verði kannað. Þess vegna styð ég þessa tillögu. Það er vitnað í greinargerð til Guðmundar Alfreðssonar og Stefáns Más Stefánssonar sem hafa haft efasemdir þó að það sé rétt sem fram hefur komið að Stefán Már hefur sagt að hann telji ekki líklegt að samningurinn stangist á við stjórnarskrána. Hann orðaði það svo á fundi, sem ég var á, að það væri erfitt að segja beinlínis til um það þó að hann teldi líklega ekki svo vera. Það var að vísu áður en breytingarnar voru gerðar á samningnum, þ.e. þær síðustu sem ganga enn lengra í þá átt sem ég tel að gæti stangast á við stjórnarskrána.
    Hér var minnst á að lagaspekingar í Svíþjóð og víðar hafa efast um að EES-samningur standist t.d. sænsku stjórnarskrána. Þeir hafa dregið sérstaklega fram það ákvæði í samningnum að ef lög EFTA-ríkjanna og EES stangast á eigi að nota lög EES eða sem sagt EB-lögin. Þetta er einmitt það atriði sem ég tel mjög vafasamt að geti staðist íslensku stjórnarskrána en það má ekki vera, eins og ég sagði áðan, nokkur einasti vafi á því.
    Fleiri hafa skoðað þetta mál og prófessor Gunnar G. Schram hefur skrifað nokkuð mikið um það. Hann hefur fyrst og fremst skrifað um Evrópubandalagið og yfirþjóðleg einkenni þess. Í grein eftir hann sem heitir ,,Framsal ríkisvalds til Evrópubandalagsins`` lýsir hann því í hverju framsal einstakra ríkja á ríkisvaldi til EB er fólgið. Hann segir orðrétt í greininni, með leyfi forseta:
    ,,Ríkjum er bannað að veita hvers konar mismunun sem byggist á þjóðerni gagnvart þegnum aðildarríkjanna. Þau hafa ekki lengur heimild til að veita eigin þegnum sérréttindi á sviði atvinnureksturs og efnahagsmála.`` Þarna er hann að vitna til þess að um framsal á ríkisvaldi sé að ræða. Og hann segir einnig, með leyfi forseta: ,,Hafa aðildarríkin framselt til dómstólsins vald til að túlka rétt bandalagsins og kveða upp dóma á réttarsviði samningsins. Í því felst m.a. heimild dómstólsins til að úrskurða að landslög skuli víkja fyrir ákvörðun EB-réttar.``
    Þetta er ákvæmlega það sama og prófessorarnir í Svíþjóð eru að segja að þarna er ákvæði um að landslög eigi að víkja fyrir EB-rétti eða EES-rétti eins og það e.t.v. mun heita. Það er framsal á ríkisvaldi til yfirþjóðlegs valds sem hefur verið eitt af því sem talað hefur verið um að verði alls ekki gert með þessum samningi. Ég tel að ákvæðið stríði gegn stjórnarskránni og auðvitað þarf að athuga það. Um dómsvaldið segir Gunnar í grein sinni:
    ,,Það er hluti af sjálfstæðisrétti hvers ríkis að það fer eitt með óskorað dómsvald innan endimarka ríkisins hvort sem þar eiga í hlut eigin þegnar eða útlendingar sem þar

eru staddir.`` Og aðeins síðar segir: ,,Frá þessum meginreglum er vikið í réttarskipan Evrópubandalagsins. Með því að gerast aðilar að bandalaginu hafa aðildarríkin framselt hluta af dómsvaldinu í hendur dómstóls EB. Þau hafa með því viðurkennt bindandi lögsögu þess dómstóls í málum sem falla innan sviðs samninganna og þau eða ríkisborgarar þeirra eru aðilar að.`` Hann segir aðeins síðar: ,,Dómar dómstólsins EB eru bindandi og dómum hans verður ekki áfrýjað.``
    Hér er til umræðu framsal ríkis á dómsvaldi í hendur EB. Þetta er nákvæmlega það sama og kemur fram í bókun 35 og vitnað var til áðan og ætla ég ekki að endurtaka það sem þar var vitnað til. Í fréttaviðtali sem birtist á síðasta ári benti Gunnar G. Schram á að í raun væri hæstiréttur í þessum málum kominn til Lúxemborgar. Það er því alveg greinilegt að lagaprófessorinn sem þetta skrifar telur að um framsal á valdi sé að ræða. Ég tel því að miklar líkur séu á að ákvæði EES-samnings gangi á svig við íslensku stjórnarskrána.
    Því hefur löngum verið haldið fram, bæði í þessum ræðustól og reyndar víða annars staðar að ekki sé um að ræða neina hættu á að EB-dómstóllinn eigi að úrskurða í lagamálum. Ég man ekki betur en hæstv. utanrrh. hafi oft talað um það að þetta stríði ekki gegn íslensku stjórnarskránni vegna þess að úrskurðir dómstólsins séu ekki bindandi. Í umræðum á Alþingi þann 17. des. sl. segir hann orðrétt:
    ,,Svar við þeirri skoðun er að það kemur ekki til álita, hvorki af hálfu EFTA-ríkjanna né af hálfu Evrópubandalagsins.`` Þ.e. hann taldi það ekki koma til álita og skömmu síðar samþykkir hann það að EB-dómstóllinn sé úrskurðaraðili þegar um er að ræða álitamál og að úrskurðir hans séu bindandi fyrir íslenska dómstóla.