EES-samningur og íslensk stjórnskipun

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 16:37:00 (5560)


     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. utanrrh. hefur valið þann kost sem viðbrögð við flutningi tillögunnar hér að skipa á sínum vegum nefnd lögfræðinga til þess að fara yfir þessi efni. Betur að hæstv. ráðherra hefði nú gripið til þessa ráðs fyrr. Þetta er satt að segja mjög sérkennilegt að á endastöð rétt áður en málið á að koma fyrir þing er til þess gripið af hæstv. ráðherra. Ég ætla sannarlega ekkert að hafa á móti því að slíkur hópur starfi á vegum framkvæmdavarldisns. Það er gott þótt seint sé í rassinn gripið. En jafnsjálfsagt er það að mínu mati að Alþingi velji þá leið sem till. mælir fyrir um að setja á sínum vegum upp óháða nefnd tilnefnda af þeim þremur aðilum sem þar er kveðið á um. Þetta vildi ég undirstrika sem viðbrögð við þeim tíðindum að hæstv. utanrrh. hefur loksins séð þörf á því að setja upp á sínum vegum formlegan hóp sérfróðra aðila sem væntanlega skila verki sínu eins og ráðherrann leggur fyrir þá.
    Ég vildi, virðulegur forseti, aðeins spyrja hæstv. ráðherra um eitt atriði sem ég les um úr erlendum blöðum og það er að sérstök athugasemd, á sænskunni kallað protokollsanteckning, sé gerð í sambandi við þann atburð sem gerist í dag, ef ég hef skilið það rétt, sem undirstriki alveg sérstaklega forgang EB-réttarins í sambandi við þetta mál allt. Ég spyr hæstv. ráðherra um það hvað hann geti sagt okkur um þetta efni sem hefur verið til umræðu í blöðum í Svíþjóð, m.a. þaðan sem ég hef þessa frétt.