EES-samningur og íslensk stjórnskipun

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 16:58:00 (5567)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér eiga sér stað að mínu mati nokkuð söguleg orðaskipti milli hv. formanns utanrmn. og hæstv. utanrrh. og má segja lýsandi fyrir mismunandi viðhorf manna til þessa máls eða sýn til þess hvernig á þessu máli hefur verið haldið að þau skulu yfirleitt eiga sér stað milli tveggja trúnaðarmanna í utanríkismálum á Íslandi, annars vegar hæstv. utanrrh. og hins vegar formanns utanrmn. Ég ætla ekki án umhugsunarfrests að blanda mér inn í orðaskiptin um þýðingu eða gildi undirskriftar eða fangamarka samninganefndarmanna á plagg úti í Brussel í dag en minni á að mér er ekki kunnugt um annað en til standi að sjálfur hæstv. utanrrh. Íslendinga undirriti sama plagg innan fárra daga. Það er væntanlega öllu alvarlegri atburður og er ég þó ekki að gera lítið úr þeim tíðindum sem eru að verða í dag og þeirri kröfu formanns utanmrn. að sérstök orðsending fylgi með frá íslenskum stjórnvöldum sem kynnt verði við undirskriftina í dag.

    Um till. þá sem nú er til umræðu vil ég segja að ég fagna henni og trúi ekki öðru en hv. Alþingi geti sameinast um að full ástæða sé til að afgreiða hana og það sem fyrst, þannig að vinna á grundvelli hennar geti hafist. Ég sakna þess enn í umræðunni að hæstv. utanrrh. hefur í raun ekki lýst afstöðu til tillögunnar, a.m.k. hef ég ekki heyrt hann lýsa yfir eindregnum stuðningi við hana, sem mér þætti þó eðlilegt. Og ég spyr hæstv. utanrrh.: Er hann ekki tilbúinn til að leggja leið sína í ræðustólinn einu sinni enn í þessari umræðu til þess að lýsa eindregnum stuðningi við að Alþingi sjálft setji í gang á sínum vegum óháða vinnu af þessu tagi? Ég trúi því ekki að hæstv. utanrrh. geti talið það óeðlilegt að Alþingi, æðsta stofnun þjóðarinnar, taki í sínar hendur vinnu að þessum örlagaríku málum sem varða tengsl samningsins við stjórnskipun landsins og stjórnarskrá.
    Í því sambandi vil ég jafnframt nefna og minna á staðreynd sem maður hefur oft hugsað um á undanförnum dögum sem er að íslenska stjórnarskráin er orðin ákaflega gamalt plagg og er auðvitað barn síns tíma, ættuð sem uppkast úr dönskum rétti frá fyrri öld og ber þess enn keim í ríkum mæli. ( EKJ: Ágæt samt.) Ágætis stjórnarskrá svo langt sem hún nær. En það sem ég er sérstaklega að hugsa um í þessu sambandi er að á síðari áratugum hafa ekki komið inn í hana sérstök ákvæði sem lúta að meðferð mála sem varða fullveldissvið landsins eins og þó hefur gerst með stjórnarskrár velflestra nágrannalandanna. Í íslenskum lögum er hvorki ákvæði um aukinn meiri hluta atkvæða þegar slík mál eru til afgreiðslu á þjóðþinginu né eru í stjórnarskrá eða lögum ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur þegar hið sama er á ferðinni. Þetta merkir að á Íslandi er að verða næsta einstök staða í þessum efnum eftir því sem ég þekki til og miðað við stjórnskipun annarra landa sem við berum okkur saman við. Ég hygg að Ísland sé óumdeilanlega eina Norðurlandið sem ekki hefur tekið upp í stjórnarskrá og/eða lög ákvæði um annað tveggja nema hvort tveggja væri aukinn meiri hluta atkvæða á þjóðþinginu þegar fullveldissamningar eru til afgreiðslu eða þjóðaratkvæðagreiðslur. Það stendur enn þannig á á Íslandi, því miður, að ekki hefur orðið uppskera af vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar sem staðið hefur um langt árabil. Ég tel að í ljósi þess getum við Íslendingar ekki skotið okkur á bak við það við afgreiðslu á þessu örlagaríka máli. Ég teldi eðlilegt að Alþingi tæki af skarið um að í þessu stóra máli mundi málsmeðferðin ekki taka mið af því að svona stendur á heldur yrði farið með hana í samræmi við málsmeðferðina eins og tíðarandinn er nú orðinn í flestum lýðræðis- og þingræðisríkjum sem við berum okkur saman við, þ.e. annaðhvort liggi fyrir ótvíræður aukinn meiri hluti atkvæða á þjóðþinginu og að það sé talið jafngilda mjög traustri pólitískri stöðu málsins, 4 / 5 eru það samkvæmt ákvæðum víða í lögum nágrannalandanna, eða þjóðaratkvæðagreiðsla farið fram um málið. Í ljósi aðstæðna hér tel ég hið síðara nærtækara. Mér finnst að það vanti inn í umræðuna, svo nauðsynleg og sjálfsögð sem hún er og auðvitað þessi úttekt, umfjöllun um þá sérstöku stöðu sem er varðandi málið í meðferð þess á Íslandi að við höfum ekki hrint því í framkvæmd sem flestar nágrannaþjóðirnar hafa gert, sumar fyrir löngu, að taka upp sérstaka málsmeðferð sem jafngildir í raun stjórnarskrárbreytingum hvað varðar meðferðina, annaðhvort með þjóðaratkvæðagreiðslum eða auknum meiri hluta atkvæða þegar sjálfstæðis- og fullveldismál eða samningar sem tengjast því sviði eru á ferðinni.
    Hæstv. forseti. Auðvitað er ekki tími til að fara út í mikla efnislega umræðu um málið en hefði þó að mörgu leyti verið eðlilegt að umræða um þessa tillögu færi fram samkvæmt þeirri málsgrein þingskapanna þar sem meiri háttar utanríkismál eiga í hlut og ótakmarkaður ræðutími er fyrir hendi. Ég vil þó láta það sjónarmið mitt koma fram líka sem sérstök rök með þessari till. að auðvitað hefur sífellt verið að safnast í þann sarp sem ætti að hvetja menn til þess að fara hér fram með ýtrustu varkárni.
    Umræðan um þessa hluti í nágrannalöndunum er öll á þá leið að vanda beri sérstaklega málsmeðferðina vegna þess að samningurinn og ferlið sem þarna er gangi svo langt inn á fullveldis- og sjálfstæðissvið þjóðanna. Er þá hvort sem heldur átt við dómstólana, dómsmeðferð mála og lausn deilumála eða það hvernig þrengt er í reynd að lagasetningarvaldi þjóðþinganna og málsmeðferðinni allri með þessum samningi, ef af verður.
    Ég vil svo segja að viðbrögð hæstv. utanrrh. eru nokkuð sérkennileg að nota tækifærið, þegar Alþingi er að fjalla um þáltill. sem felur það í sér að þingið sjálft grípi til aðgerða í þessum efnum, að skjóta því inn í umræðuna að hann hafi skipað þriggja manna nefnd í dag. Það er gott og blessað og ég ætla ekki að gera athugasemdir við að hæstv. utanrrh. láti vinna eitthvað í þessu á sínum vegum þó seint sé. En það kemur ekki á nokkurn hátt í staðinn fyrir það að Alþingi Íslendinga sjálft taki málin í sínar hendur.
    Að lokum ítreka ég spurningu mína til hæstv. utanrrh.: Er hann tilbúinn til að lýsa yfir stuðningi við það að tillagan eða önnur sambærileg verði afgreidd og að leggja því lið að málsmeðferðinni verði hraðað þannig að tillagan fái forgang í meðferð þingsins þegar að loknu páskaleyfi og framkvæmdir á grundvelli hennar eða aðgerðir geti hafist?