EES-samningur og íslensk stjórnskipun

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 17:51:00 (5580)


     Eyjólfur Konráð Jónsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér finnst umræðan fara nokkuð út og suður. Við þyrftum kannski að einbeita okkur betur að öðru en starfsháttum beinlínis, þ.e. að málinu sjálfu, því viðamikla og gífurlega mikilvæga máli sem nú er verið að ræða. Annars kem ég svona í aðra röndina til að mótmæla því að ég beri ábyrgð á kistulagningu Evrópustefnunefndarinnar. Ég held að ég hafi sjaldnast látið undan slíkri kúgun ef hún hefur verið reynd. Ekki svo að skilja að málið sé þannig vaxið. Það var einfaldlega þannig vaxið að þegar nefndin var búin að skila heildaráliti sínu, eins og henni var uppálagt samkvæmt þáltill., var það ráðið að við héldum svolítið áfram. Síðan var verkefnunum komið til utanrmn. og talið hagræði að því að ræða þau þar. En nefndin er við lýði og ég hef sagt það áður við hv. þm. Hjörleif Guttormsson og þingheim allan að hvenær sem einhver óskar þess verður hún kölluð saman. Ég held að það sé nú ekki beinlínis þörf á því. Málið er núna brennandi heitt og ég held að út af fyrir sig væri allt í lagi að kalla nefndina saman. En aðalatriðið er nú að við fótum okkur í því. Ef við erum ekki viss um hvar fóturinn lendir stígum við ekki það skref og höldum þannig þeirri festu sem við höfum. Við stöndum í fæturna eins og við höfum gert og tökum engin gönuhlaup.