Lánasjóður íslenskra námsmanna

127. fundur
Mánudaginn 27. apríl 1992, kl. 15:13:04 (5615)


     Frsm. minni hluta menntmn. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er auðvitað góður réttur hv. formanns menntmn. að túlka sín viðhorf til nál. okkar og hvernig hún skilur hlutverk meiri hluta nefndarinnar og aðstöðu til þessa máls. En við höfum leyft okkur að að túlka það sem svo að þau ákvæði sem meiri hlutinn ekki hróflar við í því frv., sem vísað var til nefndarinnar, séu um leið ákvæði sem meiri hlutinn ætlar að standa við og eru um leið tillögur hans. ( SAÞ: Ekki brtt.) Það eru ekki brtt. en það eru um leið tillögur, það er um leið málafylgja af hálfu meiri hluta menntmn. Það væri að æra óstöðugan ef menn ættu að fara að skilja þar á milli hvað sé svona hugarfóstur með höfundarrétti hæstvirts ráðherra eða hæstvirtra ráðherra í stjórnarfrv. og hins vegar þess meiri hluta sem styður ríkisstjórnina þegar um er að ræða að nefndir skiptast upp með þeim hætti. Það er hins vegar velkomið að gera kannski einhverja fræðilega úttekt á þessu atriði ef hv. formaður nefndarinnar telur það til bóta. Ég tel mig hafa dregið það fram hér og við í okkar nál. að sumt af því sem þokaðist í rétta átt í starfi nefndarinnar kemur fram í brtt. sem liggja fyrir skilmerkilega á þskj. sem brtt. meiri hlutans þannig að tiltölulega auðvelt ætti að vera að átta sig á því hvaða breytingar þar er verið að leggja til.