Samningur um Evrópskt efnahagssvæði og þingleg meðferð hans

128. fundur
Þriðjudaginn 28. apríl 1992, kl. 15:46:10 (5637)


     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Það kom mér nokkuð á óvart þegar hæstv. utanrrh. dró í efa að nauðsyn væri á utandagskrárumræðunni í dag. Mér finnst það augljóst að umræðan er mjög nauðsynleg vegna þess að hæstv. utanrrh. segist ætla að skrifa undir EES-samninginn 2. maí. Þá er rétt að hann geri grein fyrir máli sínu í ræðustól á Alþingi og að okkur þingmönnum gefist tækifæri til að eiga orðastað við hann um þennan mikilvæga samning og áður en hann stígur þetta skref. Þetta er ekki endanlegt skref til fullgildingar samningnum sem utanrrh. ætlar að stíga, en það skref er veigamikið og hann hlýtur að vona að Alþingi fallist á það sem hann hefur gert.
    Ég varð fyrir vonbrigðum með þá svarræðu sem hann flutti við mjög markvissri og málefnalegri ræðu málshefjanda, hv. 7. þm. Reykn. Mér fannst þessi ræða hrokafull og hún eykur ekki traust mitt á málsmeðferð hæstv. utanrrh. Okkur þingmönnum ber, þar er ég ekki að undanskilja stjórnarandstöðuna, að bakka utanrrh. þjóðarinnar upp á örlagastundum og reyndar ríkisstjórnin líka, hvort svo sem við höfum kosið hana eða ekki og styðjum hana í daglega lífinu á Alþingi. Við verðum að vona að þeir verði þjóðinni til sóma og gæti hagsmuna hennar hvort sem við erum sammála þeim í öllum atriðum eða ekki. En þá verða títtnefndir hæstv. ráðherrar að koma fram með þeim hætti að við treystum þeim.
    Mér fannst hæstv. utanrrh. svara þeim spurningum sem frummælandi varpaði til hans, hafði reyndar komið á framfæri við hann í gær eða fyrradag, út úr í mörgum greinum. Hann hagaði sér líkt og sölumaður sem er að selja vöru sína og gyllir fyrir viðmælendum sínum kosti þess að gera eins og hann vill. Sama má e.t.v. segja um ræðu þá sem frummælandi vitnaði til, þ.e. ræðu Van der Pas eða þann texta sem lesinn var eftir honum. Hann er auðvitað að reyna að telja sína menn á að hér sé verið að gera samning sem þeir geti vel við unað og sé þeim gagnlegur og tryggi réttindi þeirra. Hins vegar held ég að við getum ekki látið það sem sá maður sagði sem vind um eyru þjóta og ég varð fyrir vonbrigðum með að hæstv. utanrrh. skyldi ekki fara orðum um þann texta eða reyna að svara honum þar sem sá texti var í þveröfuga átt við það sem hæstv. utanrrh. hefur verið að segja okkur.
    Ég sagði að hæstv. utanrrh. hefði svarað út úr og því til staðfestingar og áréttingar vil ég nefna það að þeir fyrirvarar sem settir voru fram af Íslands hálfu í upphafi þessara samningaviðræðna eru ekki

allir komnir inn í samninginn. Sumir þeirra eru orðnir útvatnaðir, sumir eru gleymdir að því er virðist, einn fyrirvarinn svona að verulegu leyti með fullnægjandi hætti kominn þarna inn, þ.e. það á að vera tryggt að Íslendingar haldi áfram eða hafi skilyrði til þess að halda áfram yfirráðum og eignarhaldi á útgerð og frumfiskvinnslu. Að vísu er með þessum samningi verið að brjóta grundvallarprinsipp í sjávarútvegsmálum sem við höfum haldið okkur við í áratugi, þ.e. að láta ekki fiskveiðiréttindi fyrir tollfríðindi. Því miður gerum við það með þessum samningi, eða þeim drögum að tvíhliða sjávarútvegssamningi sem okkur hafa verið kynnt en sem reyndar á eftir að skrifa og er veigamikill þáttur í heildarmálinu.
    Hæstv. utanrrh. leiðréttir mig ef ég fer rangt með að það hafi verið skilyrði frá Evrópubandalaginu að slíkur samningur yrði gerður til þess að af EES-samningi gæti orðið. Þar með verður að líta þannig á að þau tollafríðindi sem felast í EES-samningnum eigi að borgast með aðgangi að fiskimiðunum.
    Eins er það með eign á landi og auðlindum. Í mínum huga er mikilvægt að Íslendingar eigi land og auðlindir á Íslandi. Þar kenndi líka útúrsnúninga. Hæstv. utanrrh. kenndi einstökum þingmönnum Framsfl. um það að ekki hafi verið samþykkt hér frv. um þjóðareign á landi og þjóðareign á auðlindum og ég tek að sjálfsögðu til mín a.m.k. hluta af þeirri ásökun. Ég lít svo á að það hafi ekki verið hægt að samþykkja þau þingmál sem hann vitnaði til einfaldlega vegna þess að þau stönguðust á við 67. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins.
    Nú kann það að vera að menn séu komnir í þá stöðu að það sé óhjákvæmilegt að slá þjóðareign á lendur einstaklinga eða sveitarfélaga og auðlindir. Það kann þó að vera að menn séu komnir í þá stöðu að það sé óhjákvæmilegt til þess að tryggja rétt Íslendinga sem þjóðar. En ég spyr: Þarf aðild að Evrópsku efnahagssvæði að kosta það að það þurfi að taka eignir af íslenskum einstaklingum í landi eða orkulindum til þess að það sé búandi við þennan EES-samning? Það getur skeð að þetta sé eina leiðin úr því sem komið er eða verði eina leiðin en hún er ekki geðfelld.
    Varðandi einkavæðingu orkufyrirtækja þá er það að vísu rétt að með því að breyta orkufyrirtæki í hlutafélag þá skapast ekki önnur hætta en sú að hlutabréfin verði seld. Sá möguleiki er að sjálfsögðu fyrir hendi og óhjákvæmilegt að horfa á hann vegna þess að samkvæmt núgildandi lögum getur ráðherra án atbeina Alþingis selt þessi hlutabréf einstaklingum eða félögum sem síðan mega gera við þau hvað sem þau vilja. Það er engin leið eftir að orkufyrirtæki er orðið að hlutafélagi að tryggja það að t.d. við gjaldþrot geti hlutabréfin ekki komist í hendur útlendinga.
    Ég hef í tvígang flutt frv. til laga um breytingu á þessum vandræðaákvæðum þannig að slíkar meiri háttar eignasölur ríkisins þurfi að hljóta samþykki Alþingis. Eins er það með landakaupin að við höfum ekkert séð sem hald er í sem geti veitt Íslendingum þann eðlilega og nauðsynlega forgangsrétt til eignarhalds á landinu sem ég tel algert grundvallarskilyrði. Eina tilhlaupið sem ég hef séð hér á Alþingi til að koma þar á viðunandi skipan eða bættri skipan er frv. sem varaþingmaður minn Elín Líndal flutti ásamt fleirum og væri til bóta að samþykkja það.
    Mig langar aðeins til þess að minnast á áhrif þessarar samningsgerðar á landbúnaðinn. Þau eru ákaflega óljós. Mér skilst að samningamaður okkar hafi lokað sig frá því atriði. Íslendingar hafa ekki tekið þátt í viðræðum um landbúnaðarmál en í mínum huga er ekki eytt allri tortryggni á að samningsgerð þessi kunni að hafa einhver áhrif á íslenskan landbúnað og ég óttast að hagsmuna hans hafi ekki verið gætt sem skyldi í þessu efni.
    Hér hafa menn rætt um hvort EES-samningurinn brjóti hugsanlega að einhverju leyti í bág við stjórnarskrána. Ég tel að það sé algjört grundvallaratriði að fá úr því skorið án allra tvímæla. Nú er ég ekki að kasta neinni rýrð á þá ágætu lögfræðinga sem hæstv. ríkisstjórn hefur sér til ráðuneytis í málinu en þeir eru að sjálfsögðu starfsmenn ríkisstjórnar og valdir af henni og kann það að binda hendur þeirra að einhverju leyti þó að ég vilji vona að svo sé ekki og traustara væri og reyndar sjálfsagt að leita álits aðila sem með öllum hætti væru óháðir ríkisstjórninni. Þess vegna tel ég að það sé mjög brýnt að afgreiða og samþykkja þá þáltill. sem hv. 4. þm. Austurl. er 1. flm. að, að fá úr því skorið með formlegum hætti og sem allra fyrst af óháðum aðilum hvort hér geti verið um stjórnarskrárbrot að ræða. Þjóðréttarsamningur sem brýtur í bág við stjórnarskrá er ógildur og ég vildi síður horfa upp á hæstv. utanrrh. hafa skrifað undir samning sem e.t.v. kæmi síðar í ljós að ekki stæðist stjórnarskrá.
    Stjórnarandstaðan sendi forsrh. bréf í gær þar sem við greindum honum frá hvernig við teldum æskilegast að fara með þetta mál á þinginu. Við höfum ekki fengið skýr viðbrögð við því bréfi enn þá og ég vona að ríkisstjórnin slái ekki á útrétta hönd okkar um það að hafa samstarf við stjórnarandstöðuna um það hvernig vinnubrögðunum verði háttað hér í vor og í sumar í meðferð málsins. Í þessu bréfi okkar felst að sjálfsögðu ekki nein efnisleg stuðningsyfirlýsing við EES-málið heldur einungis það að við viljum hafa hönd í bagga um það og ráðleggja með hverjum hætti málið verði skipulegast og skynsamlegast meðhöndlað hér í þingsölum. Samkvæmt þingsköpum er enginn vafi á því að málið heyrir til utanrmn. eins og hv. formaður utanrmn. rakti reyndar glögglega áðan. Ég lít svo á að það hafi verið almenn skoðun manna þegar Evrópustefnunefnd var ekki endurskipuð eftir síðustu kosningar að það væri ætlun manna að utanríkismálanefnd hefði mál þetta til meðferðar. A.m.k. var Evrópustefnunefnd ekki endurvakin eftir kosningarnar og þar af leiðir að utanrmn. fer að sjálfsögðu að vinna í málinu í fullu samráði við utanrrh. og án nokkurra mótmæla frá ríkisstjórninni. Hæstv. utanrrh. sagði meira að segja orðrétt hér á Alþingi 5. nóv. sl. í ræðu um skýrslu sína um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði: ,,Það sem fram undan er er

síðan frekari vinnsla þessa máls sem mun fara fram með eðlilegum hætti á vettvangi Alþingis í utanrmn.``
    Þannig að við sem teljum að málið eigi að vera í utanrmn. höfum þarna öflugan liðsmann.
    Herra forseti. Tími minn er á þrotum og ég mun að sjálfsögðu hlíta því. Aðeins tvær, þrjár setningar um þjóðaratkvæðagreiðslu. Að sjálfsögðu verður að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál, alveg óháð því hvaða niðurstöðu fjórmenningarnir komast að. Ef fjórmenningarnir komast að því að hér sé um að ræða stjórnarskrárbrot verður ríkisstjórnin, ef hún er einhuga í því að keyra þennan samning í gegn, að efna til kosninga og breyta stjórnarskránni, en niðurstaða fjórmenninganna hefur ekkert með þjóðaratkvæðagreiðslu að gera. Þetta segi ég að gefnu tilefni af þeim orðaskiptum sem urðu hér áðan á milli hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar og utanrrh.