Samningur um Evrópskt efnahagssvæði og þingleg meðferð hans

128. fundur
Þriðjudaginn 28. apríl 1992, kl. 18:06:46 (5648)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. utanrrh. sagði áðan að þeim sem gerðu áfengismál að málflutningsatriði í þessari umræðu um Evrópskt efnahagssvæði væri ekki sýnt að greina milli aðalatriða og aukaatriða. Mér finnst hæstv. utanrrh. hafa hitt sjálfan sig fyrir með þessum orðum. Þeir sem standa hér og þyrla upp moldviðri og eru með langar upptalningar um ólífur, banana, safran, appelsínur o.s.frv., þegar við erum í rauninni að ræða um hugsanlegt framsal á fullveldi, á dómsvaldi, á löggjafarvaldi, er ekki sýnt að greina milli aðalatriða og aukaatriða eða þeir vísvitandi vilja ekki greina þar á milli. ( Utanrrh.: Það var um það spurt samt.) Það kann að vera en spurt var um margt fleira og margt fleira var gert að umtalsefni og utanrrh. hefur væntanlega valið hverju hann svaraði og hvað hann gerði að umtalsefni í sinni svarræðu.
    Eitt af því sem ég gerði að umtalsefni var þetta svokallaða framsal á dómsvaldi og löggjafarvaldi. Ég hélt því fram að EB-dómstóllinn mundi fá lögsögu yfir EFTA-fyrirtækjum og ríkjum í gegnum þennan samning. Ég hélt því fram að EFTA-dómstólinn yrði að laga sig að fordæmisrétti EB-dómstólsins. Ég hélt því fram að EFTA-dómstóll yrði að taka tillit til framtíðardóma EB-dómstólsins og engu af þessu mótmælti utanrrh., ekkert af þessu gerði hann að umtalsefni í sinni svarræðu. Ég hlýt þá að skilja þögn hans í þessu sambandi sem samþykki við því sem ég sagði. Sem samþykki við þessu fullveldisafsali sem ég gerði að umtalsefni.