Frumvörp um Sementsverksmiðju ríkisins og Síldarverksmiðjur ríkisins

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 13:55:49 (5659)

     Matthías Bjarnason :
    Herra forseti. Þar sem minnst var á afgreiðslu sjávarútvegsnefndar þingsins í morgun á frv. um Síldarverksmiðjur ríkisins, finnst mér rétt að það komi fram að ríkisstjórnin hefur ekki gert neina saminga vð aðila vinnumarkaðarins. Hins vegar hefur hún birt yfirlýsingu í tengslum við gerð kjarasamninga og í 6. lið þeirrar yfirlýsingar segir:
    ,,Ríkisstjórnin staðfestir að á samningstímanum verði ekki gerðar breytingar á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eða reglugerðum sem settar eru með stoð í þeim lögum. Ekki verða gerðar breytingar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna á samningstímanum.``
    Ég tel að það sé fyrst og fremst verið að fá þarna fram að ekki sé verið að skerða lífeyrisréttindi, að ekki sé verið að skerða kjör opinberra starfsmanna. Hins vegar lá það fyrir, áður en þessi yfirlýsing er gefin, að tvö frumvörp um þessi atriði liggja fyrir Alþingi, annars vegar frv. sem rætt hefur verið í iðnn. um Sementsverksmiðjuna á Akranesi og hins vegar um frv. um Síldarverksmiðjur ríkisins sem sjútvn. hefur haft til meðferðar. Ekki hefur verið lagt á það neitt ofurkapp að afgreiða frv. á örfáum dögum. Ég þekki til þeirra vinnubragða að frumvörp hafi verið afgreidd á tiltölulega mjög skömmum tíma sem æskilegt hefði verið að tæki langan tíma að yfirvega. Það hefur því ekkert verið gert annað en að fá menn til viðræðna um málið en einhvern tíma verða slíkar viðræður að enda ef Alþingi ætlar að ljúka störfum um miðjan maí og ætlar að koma einhverjum málum fram, að það verði ekki eingöngu utandagskrárumræður og þingskapaumræður sem setji algerlega stimpil sinn á störf þessa þings.
    Persónulega hefði ég talið, það var áður en yfirlýsing ríkisstjórnarinnar var gefin út, að breyta hefði átt lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ég er þeirrar skoðunar að þegar menn fá tækifæri til að halda áfram starfi, þó breytt sé úr ríkisfyrirtæki í hlutafélag, sé það þeirra mál hvort þeir taki það starf eða ekki. Þeir fá þá sín biðlaun ef þeir vilja það ekki. Hitt tel ég óeðlilegt að menn séu á tvöföldum launum bara við það að ,,hf.`` komi fyrir aftan Sementsverksmiðju ríkisins eða Síldarverksmiðjur ríkisins. Ég hygg að flestir séu sammála því.
    Hins vegar er það ekki rétt að neitað hafi verið að kalla menn til fundar. Ég bauð upp á að þessir aðilar yrðu kallaðir til fundar á milli 2. og 3. umr. Mikil tímapressa er komin á afgreiðslu mála. Hvort sem menn eru með eða á móti þessu eða hinu, þá hljótum við öll að vera sammála um að tíminn er naumur og mörg mál óafgreidd.
    Einn þingmaður úr stjórnarandstöðunni spurði: Fáum við ekki tækifæri til þess að ræða við þessa menn? Verður hafður svo mikill asi á að málið verði komið til umræðu? Ég taldi fyrir mitt leyti að sjálfsagt væri að gera það og ég mundi vilja óska eftir því við forseta að frv. um Síldarverksmiðjur ríkisins yrði ekki tekið til 2. umr. fyrr en á mánudag. Því bið ég nú menn að hafa í huga að hér er ekki verið að skerða þingræðis- og lýðræðisleg réttindi þingmanna að kanna betur mál heldur er verið að reyna að halda áfram starfinu með það fyrir augum að nefndin öll sætti sig við að ræða málið sameiginlega á milli 2. og 3. umr. eða að minni hlutinn sætti sig við að kalla þá menn sem hann óskar eftir til viðræðna við sig og noti til þess þá daga sem eftir eru í þessarar viku, allt fram á mánudag.