Lánasjóður íslenskra námsmanna

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 22:18:13 (5686)



     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt þó að það taki alllangan tíma að fjalla um breytingar á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna og því eðlilegt að í lok þingsins nú á vordögum séum við fram á kvöld að fjalla um þetta frv. Áður en ég fjalla nánar um frv. sem hér er til umfjöllunar get ég ekki látið hjá líða að minnast örlítið á ræðu hv. 11. þm. Reykv. Finns Ingólfssonar, sem hér síðast gerði grein fyrir afstöðu formanns síns, Steingríms Hermannssonar, varðandi vexti. Það er auðvitað mjög athyglisvert þegar hv. þm. Finnur Ingólfsson gerir grein fyrir afstöðu formanns síns sem hefur mælt með því að vextir verði settir á lán þrátt fyrir það að langflestir stjórnarandstöðuþingmenn hafi lagst gegn því. Það sem vakti einkum athygli mína í ræðu hv. 11. þm. Reykv. var það þegar hann sagði að ekki væri farið að reyna á núgildandi lög um Lánasjóð ísl. námsmanna. Ég tel að það sé a.m.k. búið að reyna á það að undir stjórn Framsfl. virkar þetta kerfi ekki sem hann meðal annarra ber ábyrgð á. Það var undir stjórn Framsfl. sem mjög var þrengt að lánasjóðnum, svo mjög að þetta kerfi gat ekki virkað enda að mörgu leyti stjórnlaust. Það er ekki í þágu námsmanna að lánakerfi sjóðsins sé nánast stjórnlaust og takmarkalítil útþensla í ví. Ég vil biðja hv. þm. Finn Ingólfsson að skoða það örlítið hvers vegna Framsfl. beitti sér ekki fyrir auknum fjárframlögum til lánasjóðsins en hann gerði það alls ekki.
    Hér hefur farið fram mikil umræða, eins og hv. 14. þm. Reykv. benti á, umræða um lánasjóðinn er búin að standa yfir í allan vetur og ég tel að það sé nauðsynlegt að ræða mjög ítarlega um þennan mikilvæga sjóð. Lánasjóður ísl. námsmanna er afar mikilvægur fyrir okkar þjóðfélag. Það eru vaxandi kröfur til menntunar í þjóðfélaginu og lánin eru mikilvæg fyrir námsmenn til að þeir geti stundað sitt nám, ekki síst vegna þess að þjóðfélagið er að þróast á þann veg að miklu minna er um það en áður var að námsmenn geti gripið í að vinna fyrir tekjum. Það eru ekki þau uppgrip sem voru hér fyrr yfir sumartímann, svo mikil uppgrip að menn gátu jafnvel unnið fyrir námi sínu. Þetta er því miður að verulegu leyti liðin tíð og þess vegna er lánasjóðurinn afar mikilvægur liður í okkar menntakerfi.
    Ég gerði nokkrar athugasemdir við frv. við 1. umr. Ég sé að hv. menntmn. hefur unnið afar vel að þessu máli eftir 1. umr. Ég gerði athugasemdir við það m.a. að vikið væri frá því að námsmenn yngri en 20 ára, það snýr aðallega að þeim sem stunda iðnnám, ættu aðgang að sjóðnum og það hefur verið gerð breyting á þessu atriði og fagna ég því. Gerð hefur verið breyting á því að lögð er nú áhersla á það í brtt. meiri hluta hv. menntmn. að tekið skuli tillit til aðstöðu námsmanna, fjölskyldustærðar og búsetu. Það er auðvitað afar mikilvægt að það sé undirstrikað og tekinn af allur vafi um að í úthlutunarreglum sjóðsins skuli taka tillit til aðstæðna nemenda hvað þetta varðar.
    Einnig gerði ég athugasemd við það að endurgreiðslubyrði væri og yrði veruleg. Ég tel að með því að nú hefur verið tekin um það ákvörðun að vextir verði 1% og endurgreiðsla með öðrum hætti en í upphaflega frv. var gert ráð fyrir séu breytingar sem meiri hluti menntmn. gerir tillögu um viðunandi.
    Ég tel ekki ástæðu til þess að orðlengja um þau atriði sem ég gerði að umtalsefni við 1. umr. Ég tel að brtt. nefndarinnar séu til bóta og ég styð þær heils hugar. Það hefur verið gerð athugasemd, m.a. af Iðnnemasambandi Íslands, við 4. gr. frv. þar sem þeir fara fram á það að fá aðild að stjórn lánasjóðsins. Ég tel að auðvitað væri æskilegt að sem flestir hópar ættu sína sérstöku fulltrúa í þessari mikilvægu stjórn Ég þekki það af eigin reynslu eftir að hafa setið í stjórn lánasjóðsins í nokkurn tíma. En ég tel engu að síður að það ætti að vera fullnægjandi aðstaða fyrir þann hóp að eiga aðgang að sjóðsstjórninni gegnum fulltrúa nemenda í sérskólunum og það þyrfti að ganga þannig tryggilega frá því að þeir ættu óyggjandi aðgang að þeim fulltrúa. Ég held hins vegar að það kæmi til greina að slíkur hópur ætti fremur aðild að sjóðnum með áheyrnarfulltrúa. Þetta þarf e.t.v. að skoða betur en ég tel hins vegar að það geti ekki verið mögulegt að nemendur í hverjum einasta skóla, sem eiga möguleika á að fá lán úr sjóðnum, eigi þarna fulltrúa því að stjórnin yrði þá svo stór að það væri ekki viðunandi. Ég tel að skoða eigi þessa grein frv. betur en ég tel að það sé ekkert úrslitaatriði.
    Það hefur vissulega vakið athygli í lok þessarar umræðu að stjórnarandstaðan virðist vera bærilega ánægð með þær breytingar sem verið er að gera og þeir sem hafa kannski hvað mest gagnrýnt frv. láta ekki sjá sig við umræðuna í kvöld þó að hér sé margt mjög góðra fulltrúa stjórnarandstöðunnar að sjálfsögðu. En það vekur athygli að svo virðist sem stjórnarandstaðan sé orðin bærilega sátt við þá niðurstöðu sem hér er orðin og ber að fagna því að sjálfsögðu. En það kom mér afskaplega mikið á óvart þegar hv. 18. þm. Reykv. Kristín Ástgeirsdóttir hélt því fram að frv. mundi leiða til þess að konum yrði bægt frá námi. Ég vildi heyra þau rök ítarlegri og öflugri. Ég fæ ekki séð að nokkur einasta ástæða sé til að ætla að svo verði, miklu fremur að konum verði skapaður enn betri og öflugri möguleiki til náms með því að efla sjóðinn og það er meginatriði þessa frv. Það er það að efla Lánasjóð ísl. námsmanna til þess að geta veitt lán til náms og það er auðvitað sá tilgangur sem frv. vinnur fyrst og fremst að.
    Ég vil svo ekki lengja þessar umræður núna en tel að frv. með þeim breytingum, sem hv. menntmn. hefur gert á því, sé vel viðunandi og ég fagna því þeirri niðurstöðu sem hv. formaður menntmn. hefur leitt fram í brtt. meiri hluta menntmn.