Lánasjóður íslenskra námsmanna

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 22:42:15 (5697)


     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Ég held að hv. 1. þm. Vesturl. þurfi að kynna sér aðeins betur þetta þjóðfélag sem við lifum í og þau launakjör sem fólk býr við. Það er ekki bara um það að ræða að greiða lánin á 1% vöxtum. Við erum líka að tala um þyngri greiðslubyrði. Við erum að tala um hækkun á afborgunum. Við erum að tala um hærri tekjutengingu en nú er. Við erum að tala um verulega þyngingu á greiðslubyrði og spurningin er: Hvernig eiga þau laun, sem nú eru greidd, að standa undir þessum lánum? Það er spurningin sem við erum að glíma við. Eins og hefur komið fram og kom fram í máli mínu í dag og hefur komið fram hjá fleiri þingmönnum þá eru auðvitað til ein viðbrögð við þessu og þau eru harðar launakröfur. Ég spyr: Hvenær verður farið að semja um vextina hjá Lánasjóði ísl. námsmanna? Hvenær verður það tekið inn í kjarasamninga eins og verið er að gera nú varðandi húsnæðiskerfið?