Atvinnumál á Suðurnesjum

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 13:44:27 (5769)

     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Hér er sannarlega um mikilvægt mál að ræða sem hefur hlotið mikla umræðu í Alþingi áður, umræðu sem hefur verið frestað. Ég hef ekki tekið þátt í þeirri umræðu en hins vegar finnst mér nú að ég sé knúinn til að leggja inn nokkur orð.
    Ég ætla ekki að gera lítið úr atvinnuleysi á Suðurnesjum, langt í frá. Það er alvarlegt vandamál í þeim landshluta og það er alvarlegt vandamál hjá konum eins og hv. flm. kom inn á. Hins vegar er þetta angi af hraðvaxandi vandamáli í öllu landinu. Avinnuleysi hefur nefnilega síðan þessi umræða fór fram síðast farið hraðvaxandi í öllum landshlutum og það sem meira er, ríkisstjórnin virðist ekki hafa miklar áhyggjur af þessari þróun. Það er kannski dæmigert á árs afmæli ríkisstjórnarinnar, sem er í dag, að enginn ráðherra er að hlusta á umræðuna. Þeir eru sennilega í afmælisveislu að halda upp á árs afmæli sitt. Mér finnst það nokkuð snemmt, rétt eftir hádegið, að fara að taka upp veisluhöld.
    Mér er alvara með þessu. Mér finnst að viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þessu mesta þjóðfélagsvandamáli, sem við eigum við að glíma nú um stundir, séu ekki mjög snörp. Það eru athyglisverðar upplýsingar í nýlegu riti frá Þjóðhagsstofnun sem heitir Þjóðarbúskapurinn og sýnir atvinnuleysistölur í einstökum landshlutum 1990 og 1991. Þar eru Suðurnesin mjög há ásamt öðrum landshlutum og þetta ástand hefur versnað mjög síðan þessar tölur birtust eða á árinu 1992.
    Það er merkilegt að staðið hafa yfir kjarasamningar um margra mánaða skeið. Það sem verkalýðshreyfingunni hefur tekist með þessu margra mánaða samningaþófi er að ná miðlunartillögu um þá yfirlýsingu sem ég vil lesa til fróðleiks, með leyfi forseta. Hún er í plaggi sem heitir ,,Miðlunartillaga ríkissáttasemjara til lausnar kjaradeilu``. Þar stendur svo um atvinnumál:
    ,,Fulltrúar ASÍ og vinnuveitenda hafa kynnt ríkisstjórninni athuganir sínar og tillögur í atvinnumálum. Í ljósi þess að alvarlega horfir nú í atvinnumálum landsmanna er ríkisstjórnin reiðubúin til að ganga til samstarfs um atvinnumál við ASÍ og vinnuveitendur og með þátttöku sveitarfélaga.

    Í framhaldi af gerð kjarasamninga er ríkisstjórnin reiðubúin að stofna samstarfsnefnd um atvinnumál með þessum aðilum með það að leiðarljósi að treysta undirstöðu hagvaxtar og atvinnuöryggis. Í þessum efnum verði hugað að stefnumörkunum og aðgerðum er örvi framleiðslu- og atvinnustarfsemi í landinu til lengri tíma litið. Fyrst í stað verði lögð megináhersla á aðgerðir til að bæta atvinnuástand þegar á þessu ári. Ríkisstjórnin er reiðubúin að beita sér fyrir samstarfi allra aðila, þar á meðal í atvinnulífi og á fjármagnsmarkaði, til að nefndin geti unni markvisst að verkefni sínu.``
    Þetta er sem sagt áhuginn á þessum málum. Með margra mánaða samningaþófi hefur verkalýðshreyfingunni tekist að knýja fram yfirlýsingu um það að í framhaldi af gerð kjarasamninga sé ríkisstjórnin reiðubúin að stofna samstarfsnefnd. Hefði ekki verið gott að stofna þessa samstarfsnefnd fyrir hálfu ári eða svo eða þegar ríkisstjórnin tók við? Ég held nefnilega að þessi þróun hafi verið fyrir séð a.m.k. strax á síðasta hausti þegar veiðiheimildir í sjávarútvegi voru skornar niður um 17% og um 25%. Ég held nefnilega að þetta ástand þurfi ekki að koma mjög á óvart.
    Ég hjó eftir því í morgunsárið þegar ég opnaði útvarpið að þá var hæstv. forsrh. í útvarpinu og sagði að ríkisstjórninni hefði tekist flest vel. Það væru að vísu svolítil vandkvæði fram undan í sjávarútvegsmálum en það hefði reynst vel að taka sjávarútvegsmálin úr almennri umræðu um stund. Sem sagt, undirstöðuatvinnuvegur landsmanna er tekinn úr almennri umræðu. Þetta er yfirlýsing sem hæstv. forsrh. gaf í viðtali í útvarpinu í morgun. Hún er að vísu eftir mínu minni og ekki orðrétt, ég tek það fram, en efnislega var hún á þessa leið. Ég held nefnilega að framvindan í þessum málum hafi verið með miklum endemum það sem af er vetri og það kemur niður á konum á Suðurnesjum og karlmönnum á Suðurnesjum og konum og karlmönnum um allt land. Það vil ég láta koma fram við þessa umræðu.
    Það vandamál hefur verið tekið úr almennri umræðu og sett í einhverja tvíhöfða nefnd í sjávarútvegi að nú eru skilyrðin orðin þannig að frysting á sjó gefur rúmlega 11% hagnað en frysting í landi um 8% tap. Á meðan þetta er svona fara náttúrlega allir að undirbúa það að koma allri frystingu út á sjó. Það hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir vinnsluna í landi og kemur niður á þeim hópi sem hér er sérstaklega fjallað um.
    Ég tek auðvitað undir það að ef hægt er að gera einhverjar sértækar aðgerðir til að bæta úr hinu hörmulega ástandi á Suðurnesjum, þá er ég stuðningsmaður þess. En það það þarf einnig að skoða þessi atvinnumál í mjög víðu samhengi. Ég vil leggja á það mikla áherslu að víða er mikið atvinnuleysi og hraðvaxandi þannig að ríkisstjórnin mætti vel hlusta á þessi viðvörunarorð þó að enginn ráðherra hafi komið í þingsal til að hlusta á umræðuna um atvinnumál og er það með miklum endemum. Ég ætla ekki að krefjast þess að náð verði í þá en ég vil koma því að í umræðunni að atvinnumálin eru mesta þjóðfélagsvandamál sem við eigum við að glíma um þessar mundir.