Þróunarátak í skipasmíðaiðnaði

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 15:16:22 (5781)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Vandamál skipaiðnaðarins hafa verið alloft á dagskrá þingsins í vetur og reyndar hafa þau líka verið rædd utan dagskrár og undir umræðum um önnur mál. Þetta er ekki að ástæðulausu því vissulega er vandi á höndum í íslenskum skipasmíðaiðnaði. Þessi vandi stafar af tvennu. Í fyrsta lagi af alþekktum afturkipp í íslenskum sjávarútvegi og breyttum útgerðarháttum og í öðru lagi af niðurgreiðslum og opinberum stuðningi í samkeppnislöndunum við skipasmíðastöðvar sem íslensk stjórnvöld hafa ekki getað keppt við.
    Í frv. sem hér er til umræðu er að finna ýmis atriði, eða eins og hv. 1. flm. orðaði það, í því er hreyft ýmsum hugmyndum sem eru allrar athygli og umhugsunar verðar en eiga að mínum dómi tæpast heima í einum lögum. Reyndar er hér í flestum greinum um framkvæmdaratriði að ræða fremur en löggjafar og heyra undir ýmis ráðuneyti. Ég vil benda á það hvað varðar formgerð þessa máls.
    Hv. 1. flm. málsins orðaði það svo að hér væri hreyft fimm nýjum hugmyndum. Ég vil leyfa mér, með mikilli virðingu fyrir hugmyndasmiðunum, að benda á að flestar þessar hugmynda hafa verið til umræðu eða í framkvæmd í ýmsum myndum á undanförnum árum og geta því tæplega flokkast undir hugmyndaflokkinn nýjar hugmyndir. Með því er þó ekki neitt ljótt um þær sagt því heimurinn er þannig að það eru til gamlar hugmyndir og það eru til nýjar hugmyndir, það eru til góðar hugmyndir og það eru til vondar hugmyndir. Því miður er það svo að flestar góðu hugmyndirnar eru gamlar og flestar nýju hugmyndirnar vondar en auðvitað er galdurinn sá að finna þessar sjaldgæfu nýju hugmyndir sem eru líka góðar.
    Ég vil alls ekki segja annað um þær hugmyndir, sem hér er hreyft, en að rétt sé að athuga þær mjög vandlega. Vegna þess að ég lít svo á að hér sé í flestum greinum, eins og ég hef þegar sagt, um framkvæmdaratriði að ræða langar mig til að minna á að það er stöðugt að því unnið af hálfu stjórnvalda að leysa vanda skipaiðnaðarins eða létta undir með honum, sem kannski væri réttara að segja, því lausn vandans er ekki á annarra færi en þeirra sem stunda þennan atvinnuveg. Af opinberri hálfu hefur verið beitt margvíslegum aðgerðum og má þar nefna hagræðingarátak og markaðsátak sem reyndar eru enn í gangi á vegum iðnrn. og samtaka í greininni. Ég nefni stuðning við hönnun á nýjum gerðum skipa og fleira af því tagi. Ég nefni að á vegum iðnrn. og sjútvrn. er unnið að könnun á endurnýjunarþörf íslenska skipaflotans og hvernig best verði að henni staðið með aðild íslenskra iðnaðarmanna. Það er líka nefnd að störfum með þátttöku Alþýðusambands, vinnuveitendasamtaka iðnaðarins og starfsmanna í iðnaði og sjávarútvegi sem vinnur að athugun á efnahagslegum tengslum iðnaðar og sjávarútvegs, margfeldisáhrif breytinga til sjávarins á iðnað og þjónustu. Reyndar vil ég svo nefna að lokum að það er að störfum sérstök nefnd, skipaiðnaðarnefnd, skipuð hagsmunaaðilum, þar á meðal fulltrúum launafólks, og hún hefur á undanförnum árum sent iðnrn. ýmsar gagnlegar ábendingar sem hafðar hafa verið að leiðarljósi. Reyndar minnir hennar starf um sumt á þá nefnd eða stjórn sem nefnd er í 7. og 8. gr. þessa frv.
    Ég vil líka nefna það sérstaklega, vegna þess sem hér hefur verið sagt um starfsreglur og lánveitingar Fiskveiðasjóðs, að þeim reglum hefur þegar verið breytt á þann veg að lán til erlendrar skipasmíði er ekki lengur 65% heldur 46% af verði skipanna en 65% þegar um innlenda smíði er að ræða. Vegna þess sem nefnt var af hv. 3. þm. Vesturl. að þetta hafi verið gert sérstaklega til að tefja innflutning frystiskipa og þar með vitnað til orða sjútvrh. í umræðum fyrr að hann hefði sagt að viðskrh. hefði opnað allar flóðgáttir fyrir erlenda lántöku þá verður sjútvrh. að sjálfsögðu að svara fyrir þau orð en ekki ég. Ég vil eingöngu benda á það, virðulegi þingmaður, að þetta er ekki rétt. Engar flóðgáttir hafa verið opnaðar. Hins vegar eru í landinu í gildi reglur um það að þeir sem taka erlend lán á eigin ábyrgð án milligöngu innlendra lánastofnana eru að því frjásir og verða það fullkomlega um næstu áramót. Það er því mjög fjarri mínum hugsunarhætti í atvinnumálum og viðskiptum að meina mönnum það sem þeir geta gert upp á eigin spýtur. Það er auðvitað kjarni málsins en hitt er rétt og þar er gerðin söm að búið er að lækka lánveitingahlutfallið til erlendu smíðanna og það stendur eftir að ívilnað er hinum innlendu smíðum og reyndar mætti ganga lengra í því. Mínar tillögur hafa á undanförnum árum verið að ganga þar enn lengra til að beita Fiskveiðasjóði fyrst og fremst til stuðnings innlendum skipasmíðum.
    Hugmyndin um jöfnunargjald, sem hér er hreyft, hefur áður verið rædd. Það hefur hins vegar ekki náðst pólitísk samstaða um hana. Fyrst og fremst vegna þeirrar kröfu sjávarútvegsins að hann fái jafnan að njóta lægsta tilkostnaðar sem völ er á jafnvel þótt hann byggist á niðurgreiðslum erlendra ríkja á framleiðslu skipasmíðastöðva sinna.
    Ég hef látið fara fram á þessu máli athuganir. Það er flókið og á því eru ýmsar hliðar. Ég bendi á að nú er þegar farið að draga úr niðurgreiðslum með skipasmíðunum í samkeppnislöndunum og vonir bundnar við að þær muni hverfa á næstu árum. Af því að hér var nefnd 7. tilskipun Evrópubandalagsins, sem fjallar einmitt um þetta efni, þá fellur hún niður innan skamms tíma. Skilningur hefur verið á því og þrýstingur á það, ekki eingöngu frá EFTA-ríkjum, heldur miklu frekar frá öðrum aðildarríkjum OECD, bæði

Bandaríkjamönnum og Japönum, að algjörlega verði horfið frá þessum stuðningi. Það ætti auðvitað að auka bjartsýni hjá aðstandendum íslenskra skipasmíða. Ég bendi á að ég tel að með þeirri bókun um samráð og samstarf við EFTA-ríkin, þegar að því kemur að endurnýja þær reglur sem gilda um stuðning við skipaiðnaðinn af opinberri hálfu á hinu evrópska markaðssvæði, sé það sú von sem við getum helst átt. Við eigum mjög óhægt um vik að keppa við hina öflugu ríkissjóði nágrannalanda okkar sem veita þessum iðnaði þann stuðning. Ég vil líka benda á að hér hefur lengi tíðkast svonefnd endurgreiðsla gjalda vegna nýsmíða sem nú nemur um 6%. Sú endurgreiðsla er í reynd hærri en gjöldunum nemur eins og gjöldin eru nú. Þarna er því veittur nokkur stuðningur. Þótt ég telji hann mjög vel rökstuddann vegna fortíðarinnar þá er þar óumdeilanlega um það að ræða að við styðjum við nýsmíðar hér heima.
    Hugmyndin um útboðsskyldu á nýsmíðum og vegna meiri háttar viðgerða á skipum hefur oft verið til umræðu en framkvæmdin hefur strandað á því hvernig skyldunni verði framfylgt. Helst hafa menn staðnæmst við að Fiskveiðasjóður og aðrir lánasjóðir láni ekki til nýsmíða og breytinga nema útboð hafi farið fram. En menn hafa reynst tregir til að fallast á þá skipan, ekki síst fulltrúar útgerðarinnar, og sjá annmarka á því fyrirkomulagi sem þarna er gerð tillaga um. Ég minni á að nýlega hafa í þinginu orðið umræður um þetta mál, bæði vegna fsp. hv. 5. þm. Vesturl. og vegna till. til þál. um málið sem flutt hefur verið af hv. 4. þm. Norðurl. v. Það mál um útboðslög er allt í athugun en ég tel að það sé nauðsynlegt að fjalla um það á sínum vettvangi sem er ekki sá vettvangur sem þetta frv. myndar.
    Vandamál skipaiðnaðarins tengjast vissulega stefnunni í fiskveiðistjórn okkar og að því er nokkuð vikið í frv. þar sem gerðar eru tillögur um sérstaka tilhögun í úreldingu og endurnýjum skipa eftir því hvort endurnýjun fer fram heima eða annars staðar. Spurningin er um það hvort stjórnvöld vilji hafa áhrif á hvernig að endurnýjun fiskiskipaflotans sé staðið. Samstarfsnefndin, sem ég hef skipað og fengið þátttöku sjútvrh. í, er að sjálfsögðu vísir um að menn vilji hafa áhrif á þetta. Hins vegar eru þarna ýmis vandamál. Nú virðist t.d. mestur áhugi vera á fjölgun frystitogara, sem hv. 3. þm. Vesturl. vék að. Hann benti á möguleika til að breyta skipum okkar þannig að vinnsla gæti þar farið fram í meira mæli en nú er. Ég ætla ekki að ræða þetta mál í nákvæmum greinum en bendi á að fjölgun frystiskipa mun að sjálfsögðu draga úr umsvifum frystihúsanna í landinu og það eru margar hliðar á málinu sem ég veit að ýmsir, ekki síst sjútvrh. og sjávarútvegsnefndarmennn hafa eðlilega mikinn áhuga á. Þetta er til marks um það hversu mögum og ólíkum þáttum í okkar stjórnarfari frumvarpstillögurnar hreyfa sem hér er verið að ræða.
    Ég endurtek það að ég tel að þarna séu ýmis atriði sem eru allrar umhugsunar verð en eigi tæpast heima í einum lögum eins og hér er gert ráð fyrir. Eðlilegra sé að athuga flestar þessara tillagna á vettvangi framkvæmdarvaldsins.