Hafnalög

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 16:22:28 (5795)


     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil segja örfá orð um frv. til hafnalaga sem hæstv. samgrh. hefur mælt fyrir áður en það fer til nefndar.

    Eins og kom fram í máli hans ætlast hann ekki til að frv. verði afgreitt fyrir þinglok en verði sent til umsagnar sveitarstjórna og annarra hagsmunaaðila og síðan lagt aftur fyrir á haustþingi. Ég tel þetta góð vinnubrögð og af hinu góða að ekki er ætlunin að keyra málið of hratt í gegn, enda er hér um mjög mikilvæga lagasetningu að ræða.
    Ég get tekið undir ýmislegt sem er í frv. Annað finnst mér orka tvímælis og ég vil koma þeim sjónarmiðum á framfæri áður en frv. fer til nefndar.
    Í fyrsta lagi ber að hafa það sérstaklega í huga þegar hafnalögum er breytt að hafnir landsins eru mikilvæg þjónustumannvirki fyrir atvinnuvegina í landinu auk þess sem hér er um mikilvæg samgöngumannvirki að ræða. Þess vegna skiptir miklu máli að sú löggjöf sem sett er um hafnirnar sé skýr og undirstriki hlutverk þeirra.
    Frv. eins og það liggur fyrir gerir ráð fyrir nokkrum veigamiklum breytingum. Þar er fyrst til að taka að í 8. gr. frv. er gert ráð fyrir að eigendur hafna geti verið fyrirtæki og hlutafélög auk sveitarfélaga, svo og að hafnir geti orðið hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra, t.d. í fiskmörkuðum.
    Nú er það svo að þeir sem kaupa hlutafé í nútímahlutafélögum gera það til þess að græða peninga og hagnast á hlutafé sínu. Í þessu sambandi er umhugsunarvert ef hinum mikilvæga þjónustuþætti er varpað út á hlutafjármarkaðinn, hvaða áhrif það hefði á þjónustugjöld hafna, á hafnargjöld sem er verulegur kostnaðarliður fyrir útgerðina og atvinnuvegina. Ég ætla ekki að hafna þessari grein. Þennan hlut er sjálfsagt að skoða í samgn. sem fær frv. til meðferðar. Ég held að nefndin verði að huga að því hvaða áhrif þessi leið hafi á einkavæðingu hafna og þá gjaldtöku sem tekin er í höfnunum.
    Í 8. gr. er einnig gert ráð fyrir að hægt sé að mynda hafnasamlög um rekstur hafna þar sem landfræðileg skilyrði eru fyrir hendi. Ég er fylgjandi þessu ákvæði. Ég tel að það sé til bóta að opna möguleika um samstarf milli hafna. Ég tel að það geti aukið verkaskiptingu og vonandi sparað fé í uppbyggingu þegar til lengdar lætur. Ég er hlynntur því að opna þessa leið og tek undir þetta ákvæði, að það sé mögulegt fyrir hafnir að starfa saman og skipuleggja sínar framkvæmdir í samræmi við það.
    Í öðru lagi er veigamikið ákvæði í frv. um að breyta kostnaðarþátttöku ríkissjóðs þannig að kostnaðarhlutur ríkissjóðs hækkar í svokölluðum ytri hafnarmannvirkjum og verður 90% og að allar aðrar styrkhæfar hafnarframkvæmdir hljóti síðan 60% ríkisstyrk, en 40% styrkflokkurinn verði felldur niður. Ríkisframlag til hafnarvoga, hafnsögubáta og fastra krana til löndunar úr smábátum verður fellt niður. Ég vil vísa því til samgn. að skoða þennan þátt vel vegna þess að þó það ákvæði sé sakleysislegt að fella niður ríkisframlag til hafnarvoga, hafnsögubáta og löndunarkrana eru hafnir mjög misjafnlega settar, einkum er varðar löndunarkrana og jafnvel hafnarvogir. Það eru einmitt hafnir sem eru tiltölulega veikar sem þurfa a.m.k. að landa úr smábátum. Ég hefði viljað sjá úttekt á því á hvaða höfnum þetta mundi bitna mest.
    Hafnsögubátar eru sér á parti. Sumar hafnir þurfa að leggja ómælda fjármuni í hafnsögubáta en aðrar sleppa miklu betur, jafnvel með mjög lítinn kostnað. Ég gleypi það því ekki alveg hrátt að fella niður ríkisframlag til þessara þátta.
    Í athugasemdum við frv. segir að nefndin sem undirbjó frv. telji að þegar á heildina er litið taki ríkissjóður svipaðan þátt í hafnargerð og verið hefur, þrátt fyrir þessar breytingar. Auðvitað viljum við fá að sjá úttekt á því.
    Þá er ég kominn að því þar sem segir að frv. geri ráð fyrir að festa 25% álag á vörugjald í sessi sem renni í Hafnabótasjóð. Þetta verði um það bil 125 millj. kr. á ári.
    Ég þarf ekki að minna á að þetta var eitt af þeim ákvæðum sem fylgdu ráðstöfunum í ríkisfjármálum um áramótin. Með þessu er verið að festa þetta í sessi. Við framsóknarmenn erum algerlega andvígir þessu gjaldi, teljum það óréttlátt, koma misjafnlega niður og leiða til hækkunar á vöruverði t.d. úti á landsbyggðinni. Ég mótmæli því að þessu sé blandað inn í lagasetninguna um hafnamálin og vonast til þess að þetta gjald verði afnumið við næstu fjárlagagerð vegna þess að það er óréttlátt og kemur misjafnlega niður.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa langar ræður um frv. Ég vildi aðeins koma að þessum atriðum áður en frv. fer til nefndar. Eins og kom fram í ræðu hæstv. samgrh., ætlast hann ekki til að frv. verði afgreitt á þessu þingi svo að það gefst nægur tími til að gaumgæfa málið vel enda mikilvægt. Hafnir landsins eru nú einu sinni lífæð atvinnulífs og samgangna en atvinnulíf og samgöngur eru auðvitað nátengdar.