Hafnalög

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 18:54:00 (5815)

     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tók það ekki sérstaklega til mín sem hv. 16. þm. Reykv. sagði um varðandi yfirlýsingar þingmanna. Hins vegar tek ég undir það með þingmanninum að ég tel það mjög óeðlilegt að þingmenn gefi slíkar yfirlýsingar, ekki síst á síðustu dögum setu sinnar hér á þingi. Það geta verið þau tilvik að nauðsynlegt sé að gefa einhverjar slíkar yfirlýsingar en ég tel að þingmenn eigi að vera mjög sparir á þá penna sem notaðir eru til slíkra yfirlýsinga til sveitarstjórna sem loforð um fjárveitingu.
    Varðandi skattalega meðferð hlutafélaga sem gætu verið stofnuð um hafnir þá þarf auðvitað að huga sérstaklega að því en ef stofnað er hlutafélag um höfn þá tel ég líklegt að slíkt hlutafélag yrði að hljóta skattalega meðferð á borð við önnur félög nema um það séu sett önnur lög innan skattalaganna.
    Varðandi 25% álagið, hið sérstaka álag á vörugjald. Um þetta hafa verið deildar meiningar og ég virði þau sjónarmið að sjálfsögðu sem koma fram hjá þingmanninum. Innan Hafnasambandsins hefur verið mjög rætt um þetta en niðurstaða þeirrar nefndar sem vann að samningu þessa frv. varð sú að breyta því sem var ákveðið með bandorminum en fara þá leið að þetta sérstaka álag á vörugjaldið sem er hjá öllum höfnum landsins renni í Hafnabótasjóð.
    Varðandi Reykjavíkurhöfn tek ég heils hugar undir það að Reykjavíkurhöfn er afskaplega vel rekið fyrirtæki sem hefur hagrætt og fjárfest á þann veg að til fyrirmyndar er. Það eitt vil ég segja um rekstur þeirrar hafnar og ég held að margar aðrar hafnir mættu taka sér rekstur Reykjavíkurhafnar til fyrirmyndar.