Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 13:50:01 (5820)

     Frsm. sjútvn. (Matthías Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Sjútvn. hefur haft þetta frv. til laga um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum til meðferðar og skilaði nál. 7. apríl. Á fund nefndarinnar hafa komið Árni Kolbeinsson, ráðuneytisstjóri sjútvrn., Benedikt Valsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Helgi Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands, Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands og Sveinn Hjörtur Hjartarson frá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Einnig komu á fund nefndarinnar fulltrúar frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og umsagnir bárust um þetta mál frá ASÍ, Verkamannasambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssambandi ísl. útvegsmanna og Samtökum fiskvinnslustöðva og Vélstjórafélagi Íslands.
    Nefndin varð sammála um að leggja til að breytingar verði gerðar á frv. og eru þær brtt. prentaðar á þskj. 757. Fyrri tillaga er að 2. mgr. 4. gr. frv. orðist svo:
    ,,Í áhöfn skal vera maður með sérþekkingu á viðkomandi framleiðslu er hafa skal umsjón með allri vinnslu ásamt nauðsynlegu gæðaeftirliti. Skal með reglugerð kveða á um menntunarkröfur og starfssvið hans.``
    Hin brtt. er að á eftir 6. gr. komi ný grein, er verði 7. gr., svohljóðandi:
    ,,Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara, m.a. heimilað frávik frá ákvæðum þeirra varðandi fullvinnslu um borð í bátum undir 20 brúttórúmlestum er stunda línu- og handfæraveiðar.``
    Undir nefndarálitið rita Matthías Bjarnason, Árni R. Árnason, Stefán Guðmundsson, Halldór Ásgrímsson, Guðmundur Hallvarðsson og Hjálmar Jónsson. Jóhann Ársælsson og Steingrímur J. Sigfússon rita undir nál. með fyrirvara og sömuleiðis Magnús Jónsson sem flytur brtt. við frv.
    Ég vil bæta því við að þær brtt. sem hér eru fluttar eru fluttar í samráði og samvinnu við sjútvrn.