Málefni menntamálaráðs

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 15:42:49 (5844)



     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Það sem gerst hefur undanfarna daga er gott dæmi um það hvernig ríkisstjórnin telur að hún geti gert það sem henni þóknast. Ríkisstjórnin hefur ekki vald til að segja menntamálaráði fyrir verkum né öðrum þjóðkjörnum stjórnum en það telur menntmrh. greinilega að hann geti gert. Ég ætla ekki að rekja með hvaða hætti fráfarandi formaður menntamálaráðs hefur gengið fram án alls samráðs eða samþykkis menntamálaráðs. Þar hafa lýðræðisleg vinnubrögð ekki verið höfð í heiðri. Svo virðist sem menntmrh. og fráfarandi formaður mentamálaráðs telji sig geta ráðskast með menntamálaráð og Menningarsjóð eins og þeim þóknast og þá kannski sérstaklega bókaútgáfuna.
    Ef ríkisstjórnin eða aðrir telja að eigi að hætta starfsemi þeirri sem menntamálaráð hefur staðið fyrir, t.d. bókaútgáfunni eða einhverju öðru, á auðvitað að leggja fram frv. þess efnis hér á Alþingi. Það er mjög óeðlilegt að gera það með þeim hætti sem hér er verið að gera. Það getur ekki orðið með samkomulagi milli menntmrh. og formanns menntamálaráðs. Það er alveg út í bláinn og ég er algerlega ósammála því að það sé eðlilegur framgangsmáti að leggja Bókaútgáfu Menningarsjóðs niður og koma svo til Alþingis og spyrja hvort það hafi bara ekki verið allt í lagi að gera það. Þetta finnst mér vera alveg með ólíkindum og trúi varla að menn séu almennt á þeirri skoðun að ríkisstjórnin eigi fyrst að framkvæma og koma svo og fá stimpilinn hjá Alþingi á eftir. Ríkisstjórnin fer með framkvæmdarvaldið samkvæmt stjórnskipun Íslands og Alþingi löggjafarvaldið. Ríkisstjórnir hér á landi fara í raun að stórum hluta með löggjafarvaldið en þessu þarf auðvitað að breyta.
    Hv. 17. þm. Reykv. talaði um að einhverjar reglur séu til sem gilda um það hvernig fara eigi að þegar aðalmaður fellur frá eða segir af sér. Vel getur verið að einhverjar reglur séu til en þær eru þá hvergi til á blaði. Ef varamenn eru ekki kosnir til að taka við aðalmönnum heldur meira upp á punt þá verður auðvitað að setja þær reglur á blað svo að öllum sé ljóst eftir hvaða reglum á að fara og varamenn viti að þeir séu ekki kosnir varamenn til að taka við heldur til einhvers annars.