Lánasjóður íslenskra námsmanna

133. fundur
Miðvikudaginn 06. maí 1992, kl. 01:13:31 (5946)



     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (um þingsköp) :
    Herra forseti. Það er eflaust rétt sem kom fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að margt er órætt í málinu þótt ég verði að segja að eftir að hafa hlýtt á einar fimmtán ræður frá því ég tók til máls í síðustu viku þá hefur það eiginlega allt verið það sem áður var komið fram í umræðum um þetta mál og sjálfsagt eigum við eftir að heyra fleiri endurtekningar áður en málið verður endanlega afgreitt í þinginu. Við því er svo sem ekkert að segja.
    Ég beygi mig að sjálfsögðu undir samkomulag sem kann að hafa verið gert milli forseta og þingflokksformanna. Það geri ég að sjálfsögðu þótt mér hafi verið ókunnugt um að samkomulag hafi verið gert um að hætta klukkan eitt. Ég hefði óskað eftir því að haldið yrði áfram. Það hefur verið kvartað undan því hér fyrr í dag --- það er nú reyndar kominn annar dagur, en fyrr í umræðunni eftir að þingfundur var settur klukkan hálftvö í gær --- að umræður væru slitnar í sundur um einstök mál. Ég tek undir að það er afskaplega óheppilegt að þurfa að slíta umræður í sundur um mál eins og var gert í gær. Þessi 2. umr. um lánasjóðsfrumvarpið hefur áður verið slitin í sundur og ég tel það mjög óheppilegt. Það kemur í ljós núna og hefur svo sem oft komið fram áður að óheftur ræðutími og heftur fundartími fara illa saman. Það er það sem er alltaf að eiga sér stað hér, samið er um að hafa ekki kvöldfund og ef það er kvöldfundur að ljúka þá ekki síðar en um miðnætti, undantekning nú að samið hefur verið um að ljúka klukkan eitt. Þetta getur ekki gengið upp. Það er alveg óhugsandi að una við það og síst af öllu þegar dregur að þinghléi. Á þetta vil ég benda í fullri vinsemd.
    Það er auðvitað hægurinn hjá að koma í veg fyrir afgreiðslu mála ef menn semja alltaf svona eða setja mönnum stólinn fyrir dyrnar og hefja síðan umræður um þingsköp ef mönnum líkar ekki það sem forseti ætlar að gera.
    Ég óska eftir því, ef fundi á að ljúka núna --- og ég ætla ekki að hreyfa andmælum við því ef um það hefur verið samið --- þá fer ég fram á það við þingflokksformenn og hæstv. forseta að sest verði niður og samið um lok 2. umr. um málið, en ekki bara um það hvenær næsta fundi eigi að ljúka. Helst af öllu vildi ég óska að unnt yrði að semja um 3. umr. frv. líka. En það yrði þó strax skref í rétta átt ef menn væru tilbúnir til þess að semja um hvenær 2. umr. um frv. lyki og ég óska eindregið eftir því að hún verði ekki slitin oftar í sundur.
    Ég vil svo bæta því við að ég ætlaði mér að sjálfsögðu að tala við 2. umr., svara spurningum sem hefur verið til mín beint, þær eru ekki margar, en ég hef að sjálfsögðu ýmislegt við ræður manna að athuga sem ég mun koma að í ræðu minni, hvenær sem hún verður nú haldin. Ég vona hún verði haldin á morgun, ef ég fæ ekki að halda hana hér á eftir.