Lánasjóður íslenskra námsmanna

134. fundur
Miðvikudaginn 06. maí 1992, kl. 15:07:00 (5964)


     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Til að stytta tímann sem mögulegt er --- hæstv. menntmrh. heldur því fram að sjóðurinn hafi tapað miklu fé á ofgreiddum lánum þar sem komið hefur í ljós að tekjur manna hafi orðið hærri en reiknað var með. Það hefur jafnframt verið reiknað út hversu miklar upphæðir hafa farið í vangreidd lán. Því að auðvitað er jafnstór hópur sem hefur fengið minna en hann átti að fá. Og ég spyr: Hefur þetta verið borið saman?
    Í öðru lagi um ábyrgðarmenn: Hvernig stendur á því, ef ætlast er til að ábyrgðarmenn fyrir námslánum séu á sama hátt ábyrgir fyrir þeim lánum og gerist um bankalán úti á hinum almenna markaði, að ábyrgðarmenn eru þá aldrei spurðir um sinn eigin fjárhag? Ég vil biðja hæstv. menntmrh. að kanna hjá sjóðnum hvað undirrituð er ábyrg fyrir háum námslánum, svona kannski 8--10 einstaklinga, systkina minna og barna. Og ég vil spyrja: Hvers konar ábyrgðarleysi er að treysta á að ég sé borgunarmanneskja fyrir öðru eins og þessu?
    Í þriðja lagi. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að láta lánasjóðinn fara með það fólk sem getur ekki skilað tilteknum prófum á þriggja mánaða fresti? Ég hef áður spurt, hvað með nemendur í doktorsnámi? Og rétt að lokum, hæstv. forseti. Nemandi sem nær prófi á fyrstu önn en kemst ekki áfram vegna þess að ,,numerus clausus`` bannar það, hann kemst ekki áfram eins og dæmi eru um, verður hann endurkrafinn um lánið sem hann fékk --- eða fær hann ekkert lán áfram þó hann hafi náð prófi?