Lánasjóður íslenskra námsmanna

134. fundur
Miðvikudaginn 06. maí 1992, kl. 15:08:00 (5965)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta síðasta. Hann fær ekki lán áfram nema hann fari í nám. Hann getur að vísu skipt, hann getur farið í annað nám en hann fær ekki áframhaldandi lán nema hann sé í námi og skili árangri.
    Varðandi doktorsnámið og þá sem ekki geta skilað vottorðum þá bendi ég aðeins á að í doktorsnámi eru menn yfirleitt undir handleiðslu prófessora. Þessi mál hafa verið leyst til þessa af stjórn lánasjóðsins og ég sé enga ástæðu til að ætla annað en að þau verði leyst áfram. Það er engin ástæða til að ætla annað.
    Hvers vegna ábyrgðarmenn eru aldrei spurðir? Það er nokkuð sem ég er sannfærður um, eins og hv. þm. virðist vera, að þar hefur skort á hjá lánasjóðnum. Og ég sé ekki að hv. þm. hafi haft neitt á móti því að þar hafi verið einhver lausatök miðað við þær skoðanir sem hún hefur á skyldum ábyrgðarmanna. En ég held að það sé alveg ljóst að það þarf að herða ákvæði um hvað þurfi til að menn gerist ábyrgðarmenn á skuldum annarra yfirleitt. Og mér þykir rétt að það verði gert hjá lánasjóðnum.
    Ég hef aldrei haldið því fram að það hafi tapast fé á þessum ofgreiddu lánum. Ég hef aldrei haldið því fram að það hafi tapast. En lán hafa verið veitt án þess að það ætti að veita þau. En þau hafa í flestum tilvikum innheimst.