Lánasjóður íslenskra námsmanna

134. fundur
Miðvikudaginn 06. maí 1992, kl. 15:12:33 (5969)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Fyrst um það sem hv. þm. kallar lokun lánasjóðsins í haust. Ég er þegar búinn að fara yfir þetta. Það liggur ljóst fyrir að haustlánin verða ekki greidd út fyrr en eftir áramót og það hefur áhrif á framlög til sjóðsins á þessu ári. Það er alveg ljóst og var ekkert leyndarmál, eins og ég hef þegar rakið. Þá fullyrðingu hv. þm. að yfirlýsingin um 1% vexti sé markleysa verður hann að hafa fyrir sig. En það er alveg út í bláinn að segja að við eigum að miða alla okkar útreikninga nú við 3% vexti vegna þess að vextir muni hækka. Ég er búinn að segja að það er ekkert sem bendir til þess að ríkisstjórnin muni hækka vextina. Þeir eiga eftir að lækka í þjóðfélaginu ef allt fer sem horfir. Það er öllum ljóst og kemur, við þær aðstæður, einfaldlega ekki til greina af hálfu ríkisstjórnarinnar að hækka vextina úr 1%.