Lánasjóður íslenskra námsmanna

134. fundur
Miðvikudaginn 06. maí 1992, kl. 15:20:52 (5976)


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er hálflömuð eftir þennan andsvaratíma og þess vegna á ég ekki önnur orð til að hefja ræðu mína á núna en ,,lengi getur vont versnað``. Ég gerði mér grein fyrir því að frv. var mjög slæmt þegar það var lagt fram. Ég gerði mér líka grein fyrir því að þær úrbætur sem í orði kveðnu voru gerðar á því voru allsendis ófullnægjandi og eftir sem áður var frv. slæmt. Nú kemur það bara í ljós í þessum andsvaratíma að það er greinilega ekki einu sinni hald í þeim litlu úrbótum sem þó hafa verið gerðar á frv. Það eru vextirnir sem hafa valdið fólki mestum áhyggjum og það að fá lán greidd eftir á, hvort tveggja er í mun bráðari hættu en stjórnvöld vilja vera láta.
    Í fyrsta lagi er það þannig með vexti að við höfum enga tryggingu fyrir því hve háir vextir verði á námslánum. Það er því engin furða að við grunum stjórnvöld um græsku þar sem á þeirra vegum var lagt fram frv. sem kveður á um 3% vexti og ekkert annað. Svo er fólk að furða sig á því, og þar á ég við hæstv. menntmrh. svo það fari ekkert á milli mála, að við skulum gruna hann um að ætla að hækka vextina upp í 3%. Það var upprunalegur tilgangur frv. að hafa 3% vexti og ég held að enginn þurfi að vera undrandi þó að það hvarfli að manni að það muni einmitt vera ætlunin og að yfirlýsingin um 1% vexti sé haldlítil.
    Ég hafði hugsað mér að einbeita mér að einum þætti þessa máls en þar sem ég ákvað, m.a. til þess að slá saman og hugsanlega komast hjá því að flytja tvær ræður eftir að hæstv. menntmrh. hafði talað --- ég þarf að fara svolítið út í það sem hann sagði --- þá veit ég ekki hvenær ég kemst að meginmálinu og

vona ég að fólk virði mér það til vorkunnar að ég get ekki látið hjá líða að fjalla að nokkru um það sem hæstv. ráðherra sagði.
    Í fyrsta lagi verð ég að geta þess að ég læt hártoganir hæstv. ráðherra um hvað séu venjuleg lán og hvað séu óvenjuleg lán og slíkt, þar sem hann var að snúa út úr fyrir kvennalistakonum, ekki á mig fá. Ég vil bara taka það fram í þessu sambandi að það hefur ekki verið hrakið að námsmenn þurfi að framfleyta sér á bankalánum á fullum vöxtum til þess að koma sér af stað í námi og síðan taki þeir námslán á vöxtum og við vitum hvert hald er í þeim loforðum um 1% vexti núna.
    Við vitum það líka að þeir eru í mikilli óvissu ef ,,numerus clausus`` takmarkar þá að námi jafnvel þótt þeir standist þær kröfur sem gerðar eru í sambandi við nám. Ég sé því ekki annað en öryggi þeirra sé lítið sem ekkert og ég get ekki séð að það sé neitt venjulegt við þessi lán. Þau eru ekki venjuleg í þeim skilningi heldur eru þau jafnvel verri býti en öðrum bjóðast á lánamarkaðinum. Ég get að vísu samþykkt það hjá hæstv. ráðherra að hér er ekki um venjuleg bankalán að ræða eða venjuleg lánskjör, heldur óvissari og erfiðari en eðlilegt er þar sem þetta eru framfærslulán. Þetta eru ekki fjárfestingarlán nema fyrir þjóðina. Þjóðin er auðvitað að fjárfesta í menntun eða ætti að vera að gera það. Þetta er fjárfestingarlán fyrir einstaklinga sem ekki skilar sér á sama hátt og önnur fjárfestingarlán. Og jafnvel þó ég taki undir það að menntun geti verið mikil og góð fjárfesting fyrir einstakling þá er þetta fyrst og fremst fjárfesting þjóðarinnar og þess vegna á að sjálfsögðu að taka tillit til þess.
    Ég bendi á að eftir mjög langa skólagöngu vill það æði oft gerast að námsmenn hafa ekki verið úti í atvinnulífinu árum saman, hafa verið að taka lán sér til framfærslu og svo njóta þeir ekki þeirra launakjara sem réttlæta að kalla að þeir hafi verið að fjárfesta. Auðvitað er þetta misjafnt, en ég get ekki annað en vakið athygli á sérstöku eðli námslána. Ég vil jafnframt benda á að þetta hefur að mörgu leyti verið viðurkennt í sambandi við sérstakt eðli húsnæðislána þótt þar sé ekki sú skipan á sem ég teldi æskilegasta.
    Tilraunir hæstv. ráðherra til þess að kasta rýrð á námsmenn held ég að falli marklausar niður, sem betur fer. Hins vegar getur okkur sárnað að heyra svona talað um námsmenn.
    Það hefur margkomið fram í umræðum að málflutningur hæstv. ráðherra og annarra sem hafa tekið í sama streng, dæmir þá sjálfa og ekki aðra. Ég get ekki annað en bent á að í fyrsta lagi á þessi málflutningur ekki við rök að styðjast og í öðru lagi finnst mér ekki sæmandi að vera með dylgjur um námsmenn eins og verið hafa í umræðunni að undanförnu eða hefur einhverra hluta vegna versnað á undanförnum dögum. Ég er afskaplega ósátt við þetta.
    Til þess að það fari ekkert á milli mála við hvað ég á, vil ég vitna í blaðagrein úr Morgunblaðinu frá 9. apríl sl., með leyfi hæstv. forseta. Þar segir Gunnar Birgisson, formaður stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna:
    ,,Lánasjóðurinn og þar með skattgreiðendur, sem styðja sjóðinn verulega, tapa ekki einungis háum fjárhæðum á þessum lausatökum, sem stafa af samtíma --- eða fyrirframgreiðslu lána. Þeir námsmenn sem falla í gildruna verða fyrir ómældum og oft sárum vanda. Það er því miður daglegt brauð hjá starfsmönnum LÍN að horfa upp á vandræði fólks vegna þess. Þegar námsmenn hafa fengið svonefnd ,,ofgreidd lán`` verða þeir fyrir því að leitast er við að innheimta þau á sem skemmstum tíma. Viðkomandi hafa undantekningarlítið eytt lánuðum peningum og lenda í miklum þrengingum og flosna jafnvel til frambúðar upp frá námi o.s.frv.`` --- Það er reyndar ekki skýrt nánar.
    Ef það eru ekki getsakir að láta alla gjalda fyrir þá fáu sem lenda í þessari slæmu stöðu, ef þetta er ekki rógur um námsmenn almennt, er málskilningi mínum bara ábótavant og tek ég það á mig. Ég sætti mig einfaldlega ekki við þennan málflutning. Hann hefur verið margítrekaður. Ég tek ekki undir hann og get ekki annað en fordæmt hann.
    Mér þykir þegar hafa komið fram ástæða til að ítreka vanþóknun mína og fleiri kvennalistakvenna á því að bera kvennalistakonum á brýn að þær séu að hvetja námsmenn til að leggjast í barneignir í ábataskyni. Öðruvísi var ekki hægt að skilja orð hæstv. ráðherra. Það styður það sem ég sagði áður að það er verið að rægja menn í umræðunni sem er ekki sæmandi.
    Auk þess vil ég geta þess að heimildarákvæði það sem hæstv. ráðherra var svo tíðrætt um, um að taka megi tillit til fjölskyldustærðar, er harla lítilvægt ef það eru þessi viðhorf sem ráða ríkjum. Mér finnst það ekki lofa góðu, ég verð að viðurkenna það.
    Það sem eftir stendur, eftir það sem fram hefur komið í umræðunni og eftir að ég hef litið á þann veruleika sem frv. felur í sér, er að frv. fylgir ójöfnuður til náms. Það hrakti hæstv. menntmrh. ekki í máli sínu.
    Ráðherra hefur borið kvennalistakonum á brýn og síðast í máli sínu áðan að þær komi ekki með tillögur til úrbóta. Þetta er rangt. Kvennalistakonur hafa bent á að besta leiðin til þess að skipuleggja framhald á starfi Lánasjóðs ísl. námsmanna í sátt og skynsemi er að gera það í samstarfi og samvinnu við námsmenn. Það eru einu skynsamlegu vinnubrögðin og á það hefur margoft verið bent í þessari umræðu og við kvennalistakonur höfum svo sannarlega gert það líka.
    Við höfum bent á að það eru til leiðir. Hæstv. ráðherra er ekki sammála þeim leiðum en þær leiðir eru til og þær eru fullgóðar. Þær leiða ekki yfir þann ójöfnuð sem tillögur ráðherra gera. Þar af leiðandi lít ég svo á að þær séu betri en frv. sem við erum að fjalla um.

    Að þessum sundurlausu inngangsorðum loknum get ég nú farið að snúa mér að því sem ég hafði fyrst og fremst hugsað mér að fjalla um. Ég hafði nefnilega ekki í huga að fjalla almennt um þær afleitu breytingar sem nú er verið að gera á Lánasjóði ísl. námsmanna heldur að fjalla annars vegar um hvort og hvernig hugsunin eigi á að vera á bak við lánasjóðinn því núna er verið að eiga við það grundvallaratriði þar sem jafnrétti til náms er í raun hafnað og nýr stíll boðaður. Stíll sem vægast sagt er ógeðfelldur og segir að allir eigi að hafa tækifæri til náms en því orðalagi hafnað að allir eigi að hafa jafnan rétt til náms.
    Allir eigi að hafa tækifæri til náms, segir mér nákvæmlega ekki neitt. Ég get ekki ímyndað mér annað en að allir hafi tækifæri til einhvers í flestum þjóðfélögum sem á annað borð bjóða upp á einhverja menntun og það gera nú flest þjóðfélög. Frv. hefur hafnað því, bæði í orði og á borði, að allir eigi að hafa jafnan rétt til náms og það varðar hitt atriðið sem ég ætlaði að koma sérstaklega að, en það er hvernig búið er að þeim að kjósa að fara leiðir sem því miður eru óhefðbundnar í námi, þ.e. að fara út í einhvers konar starfs- eða verknám. Að mínu mati er það grundvallaratriði að fólk hafi valfrelsi ef það velur sér nám. Ég get ekki séð að í frv. sé það tryggt.
    Þá vík ég fyrst að jöfnuðinum sem hefur verið úthýst úr frv. Þessi áherslubreyting minnir óneitanlega á eina ágæta bók sem kom út í Englandi árið 1945 og er eftir George Orwell. Bókin var fyrst gefin út á íslensku árið 1949 á vegum Prentsmiðju Austurlands. Þetta var ekki löngu eftir að hún kom fyrst út erlendis og hún vakti að sjálfsögðu mikla athygli. Þá var hún nefnd Félagi Napoóleón. Svo ég fari rétt með og allir viti við hvað ég á, kom sama bók út undir öðru nafni, mig minnir að það hafi verið Dýrabær og það er bein þýðing á enska nafninu Animal Farm. Ég hygg að flestir viti um hvað þessi víðfræga bók fjallar, jafnframt er ljóst að hún reyndist spádómsbók um valdakerfi sem nýlega hrundi. Í þessari ágætu bók eru orðin sem ég ætla að gera að útgangspunkti í fyrri hluta ræðu minnar, í eilítið breyttri mynd að vísu. Mér sýnist að einkunnarorð þess afleita frv. sem við erum að fjalla um, séu að allir séu jafnir en sumir séu jafnari en aðrir. Raunar stendur í bókinni: ,,Öll dýr eru jöfn en sum dýr eru jafnari en önnur.``
    Ég get ekki annað en bent á, eftir að yfirlýsingarnar um barneignir námsmanna komu fram áðan, að það liggur stundum við að talað sé um námsmenn eins og skynlausar skepnur og það þykir mér ekki sæmandi.
    Þótt mér hafi blöskrað hvernig talað hefur verið um námsmenn að undanförnu, ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þetta.
    Spurningin um jöfnuð felst fyrst og fremst í því að þeir sem eru jafnari en aðrir samkvæmt frv. eru þeir sem ekki þurfa að reiða sig á námslán í upphafi náms. Raunar eru þeir jafnastir sem minnst þurfa að reiða sig á námslán. Það getur t.d. verið ef fólk á vel stæða foreldra eða hefur aðgang að vel launaðri vinnu. Frv. mismunar hins vegar fólki varðandi vinnuna og eftir því hvaða nám það velur sér. Það mismunar fólki líka eftir því af hvaða kynferði það er því að enn er það svo að stúlkur eiga ekki kost á jafn vel launaðri vinnu og piltar í námi, því miður. Þetta er staðreynd sem við þekkjum. Hér eru því þegar vísbendingar um að sumir séu jafnari en aðrir. Auk þess geri ég ráð fyrir að sumir bendi á þann möguleika sem áður var mjög vel þekktur og það er að eiga góða fyrirvinnu. Þá var það reyndar þannig að oftar en ekki voru það karlmenn sem áttu þessar góðu fyrirvinnur, konurnar sem unnu fyrir þeim meðan á námstíma stóð. Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta. Ég veit að það vekur töluverðan taugatitring hjá sumum þegar þessi sögulega staðreynd er dregin fram í dagsljósið. Ég ætla engu að síður að halda henni til haga.
    Mér þykir það ekki síst íhugunarvert að fólki er mismunað eftir því hvaða nám það velur. Ýmsar vísbendingar eru um það í þeim umsögnum sem hv. nefnd bárust frá ýmsum samtökum skóla, einkum þeirra sem við tölum venjulega ekki um, ekki Háskóli Íslands heldur aðrar leiðir í námi. Þar kom fram að þetta kerfi, eins og það er sett upp, hentar þeim ekki. Þetta þýðir að við erum í fyrsta lagi að gera fólki almennt erfitt fyrir nema það þurfi ekki á námslánum að halda og í öðru lagi erum við að gera sumum enn erfiðara fyrir og ekki var á það bætandi. Á eftir mun ég rekja örfá dæmi sem staðfesta þetta því að ég vil ekki að orðum okkar ræðumanna, þó við reynum að draga saman mál okkar, sé vísað á bug með því annaðhvort að svara þeim ekki eða að snúa út úr. En því miður hefur það orðið hlutskipti okkar oftar en ekki að það er einfaldlega sagt: Þetta er ekki rétt eða þetta er ekki mikilvægt. Þetta er rétt og þetta er mikilvægt.
    Ég er ekki að segja að önnur mismunun sé betri. Ég er bara að benda á atriði sem lítið hefur verið í þessari umfjöllun, atriði sem ég tel óhjákvæmilegt að sé með í umræðunni.
    Við 1. umr. málsins hafði ég tækifæri til þess að benda á þetta og það voru fleiri sem gerðu það svo sannarlega. Sem betur fer var horfið frá einu ranglætinu þarna. Horfið var frá 20 ára aldurstakmarkinu, aðgöngumiðanum, nafnskírteininu að lánunum sem hrakti fólk frá ef það fór í starfsnám yngra en tvítugt. Auðvitað er það þannig tilgangur okkar sem tökum þátt í umræðunni að reyna að tala um fyrir fólki jafnvel þó okkur þyki stundum æði illa hlustað og það er út af fyrir sig afskaplega mikið áhyggjuefni þar sem með rökum er í rauninni hægt að leysa þetta mál. Það vantar hreinlega pólitískan vilja.
    Ég gat þess sérstaklega og ætla að fylgja því eftir að það er verulegt áhyggjuefni sumra sérskólanema hvernig málum þeirra er komið með frv. Það er einkum tvennt sem er tínt til. Sums staðar er námi þannig háttað að það kemur sérlega hart niður á námsmönnum hvernig kerfið virkar. Þá á ég einkum við að geta ekki fengið námslán fyrr en búið er að sýna fram á ákveðna námsframvindu.
    Í öðru lagi er ástæða til að benda á að iðnnemum er ekki ætlað að hafa sérstakan fulltrúa til að

gæta hagsmuna sinna. Þetta er auðvitað nokkuð sem þegar er búið að fjalla um. Í umræðunum hafa túlkanir gengið á milli ræðumanna og hæstv. menntmrh. um það hvað hann eigi nákvæmlega við með því að vísa til fulltrúa Bandalags ísl. sérskólanema þegar vakin er athygli á umkvörtun iðnnema. Þetta er náttúrlega nokkuð sem skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er hvað er gert og það er ekkert.
    Ef ég fer í örfáum orðum í gegnum helstu athugasemdir námsmanna sjálfra, nú er ég bara að tala um þá námsmenn sem eru í verknámi eða öðru námi sem ég hef valið að gera að umfjöllunarefni, þá hafa þær athugasemdir í fyrsta lagi beinst að 4. gr. frv. Þar kemur skýrt fram hvernig stjórn sjóðsins er skipuð og ég vil, með leyfi hæstv. forseta, vísa til athugasemda Iðnnemasambands Íslands, en þar segir:
    ,,Í þessari grein er fjallað um samsetningu stjórnar LÍN en hún á að vera óbreytt. Iðnnemasambandið leggst gegn óbreyttri skipan stjórnar á þeirri forsendu að Iðnnemasamband Íslands eru einu heildarsamtök námsmanna sem eiga skjólstæðinga hjá LÍN en eiga ekki fulltrúa í stjórn sjóðsins. Í raun er það svo að iðn- og verknám á enga fulltrúa innan stjórnar LÍN. Það hefur margoft sýnt sig að vanþekking stjórnarmanna á uppbyggingu og sérstöðu iðnnáms á Íslandi hefur leitt til þess að iðnnemar hafa fengið verri afgreiðslu innan sjóðstjórnar en tilefni hefur verið til. Sá misskilningur hefur verið ríkjandi að fulltrúi Bandalags ísl. sérskólanema sé einnig fulltrúi iðnnema í stjórn LÍN.
    Í þessu sambandi er rétt að taka skýrt fram að það eru engir iðnnemar innan BÍSN og þau samtök eru ekki hagsmunasamtök iðn- og verknámsnemenda. Á yfirstandandi ári eru 1341 félagi í Iðnnemasambandi Íslands á námslánum. Það verður ekki séð að með neinum rökum sé hægt að halda iðn- og verknámsnemendum frá því að eiga sinn fulltrúa í stjórn LÍN. Sem einu hagsmunasamtök iðn- og verknámsnemenda á Íslandi gerir Iðnnemasamband Íslands þá kröfu að það fái fulltrúa í stjórn LÍN til jafns á við aðrar námsmannahreyfingar.
    Til upplýsingar þykir rétt að láta það koma fram að Iðnnemasamband Íslands var stofnað 1944 og hefur haldið úti samfelldu starfi í þágu félagsmanna sinna allt frá stofnun. Iðnnemasambandið er einnig viðurkennt af hinu opinbera sem fulltrúi iðn- og verknámsnemenda og má í því sambandi benda á að Iðnnemasambandið á fulltrúa í iðnfræðsluráði sem er menntmrh. til ráðgjafar um framkvæmd iðnfræðslumála.``
    Mér finnst full ástæða til að vekja athygli á þessu og ég vona að þetta muni ekki leiða til þess að við förum í hefðbundið karp um hverjum þetta sé að kenna, svona hafi fyrri ríkisstjórn verið vond og þá eigi þessi að vera svona vond líka. Ég er orðin mjög leið á þeim málflutningi. Hann er ekki málefnalegur og leiðir okkur ekki neitt.
    Ég vil líka benda á brtt. sem minni hlutinn í menntmn. stendur að en þar er gert ráð fyrir að Iðnnemasamband Íslands eigi fulltrúa í LÍN. Það sýnir hug þeirra og ég held að ég þurfi ekki að fjölyrða neitt meira um það.
    Þessar athugasemdir tel ég að þurfi að vera með í umræðunni en ég geri ráð fyrir því og hef raunar rökstuddan grun um að iðnnemar og fleiri nemar í sérskólum hafi meiri áhyggjur af 6. gr. frv. þar sem fjallað er um það að námslán skuli ekki veitt fyrr en námsmaður hafi skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur og að námslán skuli ekki veitt nema námsframvinda sé með eðlilegum hætti. Við höfum ekki fengið skýringar frá hæstv. ráðherra sem gefa tilefni til mikillar bjartsýni um hvað felist í þessum orðum nákvæmlega, því miður ekki. Þess vegna vil ég vísa í umsögn Nemendafélags Tækniskóla Íslands, þar sem eftirfarandi kemur fram um námsárangur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við lýsum undrun okkar á því að það sé í frv. þessu að námslán eigi að greiðast út eftir að námsárangur liggur fyrir. Verði þetta til þess að námsmenn verði að þiggja almenn lán í bankakerfinu sem greiðast niður þegar námslánið greiðist. Mun þetta hafa í för með sér mikinn vaxtakostnað fyrir námsmenn sem skerðir framfærslu. Við vitum að í sumum skólum mun þetta valda miklum erfiðleikum vegna þess t.d. að próf eru aðeins tekin einu sinni á ári. Í söngskólum t.d. og í öðrum liggja prófúrlausnir ekki fyrir fyrr en löngu eftir að próf er þreytt, í Háskóla Íslands t.d.``
    Þetta er athugasemd frá Nemendafélagi Tækniskóla Íslands. Síðan er bent á fleira í athugasemdum þeirra. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Útgáfa vottorða um tilskilda skólasókn er ekki framkvæmanleg í Tækiskólanum og ber tvennt til. Í fyrsta lagi er tímasókn frjáls nema í vissum verklegum æfingum en hins vegar skilaskylda sem er tengd próftökurétti. Í öðru lagi þyrfti slík vottorðaútgáfa að fara fram á þeim árstímum sem annir hjá skrifstofu og deildarstjórum er í hámarki og væri ókleift að bæta þeirri vinnu á starfslið skólans.``
    Þarna eru töluvert fleiri athugasemdir og margir námsmenn hafa áhyggjur af því hvað þetta muni fela í sér fyrir þá. Ég tek undir þessar raddir. Ég held að við megum ekki og eigum ekki að smíða kerfi sem gerir ýmsum hópum erfiðara fyrir en áður eins og verið er að gera með þessu frv. sem við fjöllum hér um. Það er auðvitað þess vegna sem við erum að reyna að sýna fram á og tala um fyrir meiri hutanum og það veit ég að fulltrúar minni hlutans í hv. menntmn. hafa verið ötulir við að gera. Einhverjum endurbótum hafa þeir sem betur fer náð fram en nú er það að koma í ljós að jafnvel það sem náðist fram er meira og minna án nokkurrar innstæðu. Ég lýsi vanþóknun minni á því. Ég hélt að ástæða væri til að fjalla um ákveðin atriði á jákvæðari hátt þótt ekki væri nema í ljósi sanngirni en ég get það einfaldlega ekki vegna þess að ég spyr eftir þær upplýsingar sem komu fram í andsvaratíma áðan undir ræðu hæstv. menntmrh.: Eru kannski fleiri laumufarþegar sem fylgja með þessu frv.? Er kannski víðar pottur brotinn en þar sem við höfum þegar rekið augun í? Ég kvíði þeim svörum sem reynslan mun e.t.v. færa okkur.

    Ég hefði, og mun e.t.v. ekki stilla mig um það síðar, viljað fjalla töluvert meira um hvernig námslánakerfið skiptir sköpum þegar við erum að móta menntastefnu framtíðarinnar. Það er nefnilega þannig, og það er rétt, að við höfum haft nokkra stýringu í þeirri fyrirgreiðslu sem við höfum veitt námsmönnum. Mér sýnist að sú stýring sé meiri og verri samkvæmt frv. en áður hefur verið. Ef frv. nær fram að ganga er ekki verið að gera öllum jafnhátt undir höfði. Ég verð því miður að harma hve mjög umræðan öll, einkum sú sem hefur falist í óábyrgum yfirlýsingum og viðhorfum til námsmanna, hefur skaðað okkur, því framtíð þjóðarinnar felst í því hvaða menntun við búum þjóðinni. Mér sýnast viðhorf sumra þeirra sem hafa skipt sér af umræðunni, nú á ég ekki bara við innan Alþingis heldur ekki síður utan þess þar sem ekki er eins hægt að henda reiður á orðum manna, til námsmanna vera fordómar oft og tíðum. Það er búið að markaðssetja námsmenn sem afætur á samfélaginu í staðinn fyrir að skilja að samfélagið er að fjárfesta í framtíð sinni með því að búa fólki fjölbreytta möguleika í námi. Ég get ekki stillt mig um það varpa þeirri spurningu fram hvort menn sætti sig við þá mynd sem við heyrum stundum um námsmenn, sérstaklega þegar orð falla um bílaeign námsmanna og eitt og annað slíkt, að þetta séu óhófslifnaðarmenn af báðum kynjum sem lifi í vellystingum á kostnað kerfisins og skili því engu. Svona eru þessi viðhorf og þau eru andstyggileg að mínu mati. Ég get alveg tekið undir það að hér hefur ekki alltaf verið rekin rétt menntastefna og ég get alveg tekið undir það að ég vil sjá meiri fjölbreytni í námsvali, fleiri möguleika. Sá vandi nær allt til sex ára bekkjarins og hann, þessi vandi, er nokkuð sem við þurfum að taka á, ekki bara á einum stað heldur á öllum stöðum í skólakerfinu.
    En það að líta á þá sem taka lán úr Lánasjóði ísl. námsmanna sem afætur á þjóðfélaginu er viðhorf sem ég hafna. Ég segi þetta hreint út vegna þess að ég er orðin hundleið á þessu.
    Til þess að verða ekki vænd um að vera að verja sjálfa mig verð ég að upplýsa það að vegna óréttlátra reglna datt ég nánast út úr lánakerfinu í upphafi náms míns og ég vil ekki sjá að þeir unglingar sem nú hyggja á framhaldsnám þurfi að sæta því sama. Eftir að ég hafði lokið námi voru gerðar endurbætur á námslánakerfinu og ég get vel unnt þeim sem á eftir koma að njóta þeirra endurbóta. Og ég tek undir það sem fram kemur í nál. því sem minni hlutinn skilaði --- eða hvort það var nú í frávísunartill. --- að við eigum að halda í það kerfi sem er búið að byggja upp í samráði við námsmenn.
    Svo ég komi nú og yfirbjóði í fordómum þannig að einhver sem haldinn er þessum fordómum geti þá tileinkað sér orðskrúð ekki minni rithöfundar en John Steinbecks, vil ég vitna í bók, ekki þá bók sem flestum er hugstæð núna, Þrúgur reiðinnar, vegna þess leikrits sem nú er í gangi og vegna þeirra kreppueinkenna sem við kennum þó þau séu sem betur fer ekki orðin eins alvarleg eins og í því ágæta leikriti og því ágæta ritverki, en það er önnur bók sem Steinbeck skrifaði, háðsleg bók og heitir Hundadagastjórn Pippins IV. og er þörf lexía. Þar veltir hann sér upp úr fordómum gagnvart ýmsum stéttum, m.a. námsmönnum. Þessi bók kom út á íslensku 1957 og mig langar að ljúka orðum mínum með því að benda á hvernig Steinbeck lýsir námsmanni þar í háðsstíl. En á bls. 80 í bókinni segir, með leyfi forseta:
    ,,Meðan þessu fór fram brá Todd sér í fjóra háskóla, Princeton til að nema klæðaburð, Harward vegna framburðar, Yale fyrir skoðanir og Virginíuháskóla upp á framkomu. Upp úr þessum skólum kom hann með lífstíðarveganesti á öllum sviðum nema í listum og utanlandsferðum. Úr hinu fyrrnefnda bætti hann með dvöl í New York þar sem smekkur hans fyrir vönduðum djassi tók framförum. Hin mikla reisn hans meðan endurreisn franska konungdómsins fór fram bætti úr hinu.``
    Ég vildi óska að hér væri um skrumskælingu á umræðu um námsmenn að ræða. En því miður er bara stigsmunur en ekki eðlismunur á því umtali sem íslenskir námsmenn hafa mátt sæta. --- [Fundarhlé.]