Nefnd um framtíðarkönnun

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 11:14:00 (5999)


     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki miklu við það að bæta sem hæstv. forsrh. sagði en ég vil þó láta það koma fram hér að ég tel að árin 1987--1988, þegar þetta verk lá niðri, hafi ráðið úrslitum um það að ekki tókst að ljúka því. Það er afar mikilvægt að slíkt verk sé unnið nokkuð samfellt en þarna varð á hlé sem gerir það að verkum að ýmis sú vinna sem þá lá áður fyrir hefði þurft að endurskoðast mjög vandlega en það var mjög skaðlegt.
    Ég vil einnig taka undir með hv. síðasta ræðumanni, Svavari Gestssyni, að það er slæmt að ekki skuli ráðgert að líta fram á veg. Það eru alls staðar starfandi framtíðarstofnanir. Þetta verk var unnið í samvinnu við alþjóðalegar stofnanir á þessu sviði og ég er þeirrar skoðunar að þau tengsl séu afar mikils virði og mjög nauðsynlegt að líta lengra fram á veg en til morgundagsins. Ég man ekki betur en það hafi komið út fjórar skýrslur. Ég tel mig eiga þær. Þær hafa verið seldar í verslunum hér. Ég held að það séu örugglega fleiri, en tvær a.m.k.