Flutningur starfa út á land

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 11:35:08 (6008)



     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem hafa orðið um þessa fyrirspurn og það svar sem gefið var við henni. Ég hygg vegna ummæla hv. síðasta ræðumanns að það þurfi ekki að brýna núv. hæstv. ríkisstjórn, og mér heyrðist hæstv. forsrh. gefa allgóðar skýringar á stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum.
    Vegna þeirra umræðna sem hér hafa átt sér stað vil ég enn ítreka að BÁR-kerfið er miðlægt kerfi í þessum skilningi. Það sem skiptir auðvitað máli er að skráningin sjálf fari fram á viðkomandi stöðum. Þegar við erum að tala um viðkomandi staði þá er það úti í fyrirtækjunum hvar sem þau eru á landinu og það kemur auðvitað landsbyggðinni til góða.
    Það er þó undirstöðuatriði að átta sig á að þetta getur helst gerst ef stofnanirnar sjálfar eru sjálfstæðar. Þá komum við kannski að því atriði sem skiptir miklu máli í þessari umræðu en það er sú tilraun sem nú er verið að gera til þess að koma ábyrgð og frelsi til viðkomandi stofnana og breyta hugsunarhættinum í fjárlagagerðinni og framkvæmd fjárlaganna. Það mál hefur verið hér til umræðu upp á síðkastið.
    Annað vil ég nefna sérstaklega til sögunnar í þessu sambandi. Það eru einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar. Þau eru mjög mikilvæg þegar talað er um þessi mál vegna þess að því meira sem er einkavætt þeim mun meiri möguleiki er á því að störf færist nær þjónustustarfseminni og stofnununum. Ef frelsi er gefið og fyrirtækin, þótt þau séu öll eða mörg í eigu ríkisins, eru sjálfstæð og starfa sem slík, þá eru meiri líkur til þess að starfsemin verði boðin út og þá oftast til heimaaðila. Til slíkra afbrigða þekki ég og vil leggja áherslu á að þannig geti einkavæðingin, sjálfstæði stofnana og svokölluð byggðastefna í mörgum tilvikum farið ágætlega saman.