Skipaútgerð ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 14:33:00 (6055)


     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Nú þegar komið er að þinglokum og annir að verða miklar á Alþingi kemur á dagskrá frv. til laga um brottfall laga um Skipaútgerð ríkisins. Það má spyrja sem svo: Af hverju liggur svo mikið á þessu máli? Hvað rekur hæstv. samgrh. til þess að strekkja við það að hafa þetta frv. á dagskrá á lokadögum þingsins þegar svo er ástatt að þetta fyrirtæki á eignir enn þá og er formlega starfandi? Ekki síður er það undarlegt fyrir það að á eftir 2. gr. frv. er ákvæði til bráðabirgða um að ráðherra sé heimilt að fresta því að leggja niður þær stöður sem nauðsyn krefur í tengslum við lokauppgjör Skipaútgerðar ríkisins. Maður skyldi halda að það lægi ekki svo mikið á að það þyrfti að eyða hér dýrmætum tíma

á lokadögum þingsins í þetta mál, þegar ótal mörg önnur mál bíða afgreiðslu. Fyrsta spurningin sem vaknar er hvað valdi þessu.
    Það hafa komið hér fullyrðingar um það, bæði hjá hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh., að þessi aðgerð hafi tekist vel. Eins og þeir muna sem hafa hlýtt á þessa umræðu þá hafa gengið yfirlýsingar af þessu tagi. Ekkert er komið fram um það hvernig þessi aðgerð hefur tekist, hvort hún hefur tekist vel eða hvort hún hefur tekist illa. Það er engin reynsla komin á þetta fyrirkomulag sem er núna. Það er kannski þess vegna sem frv. er rekið hér áfram og umræða um það að hæstv. ráðherrar vilja hafa vaðið fyrir neðan sig og losna við að taka upp þessa umræðu seinna þegar meiri reynsla er komin á þetta mál.
    Það er nú svo, það er alveg rétt, að mikil samkeppni ríkir á ströndinni núna milli tveggja skipafélaga, Samskipa og Eimskipa. Sú samkeppni var komin af stað fyrir áramót þegar umræða fór af stað um að leggja Skipaútgerðina niður. Þá fóru þessi skipafélög tvö, þau stærstu í landinu, að berjast um að ná til sín þeim flutningum sem Ríkisskip höfðu áður og varð ágengt. Það kemur að sjálfsögðu fram í afkomu Ríkisskipa á síðasta ári eins og hefur komið hér fram, m.a. hjá hv. 5. þm. Vestf. Þess má vænta að þjónustan verði góð og mörg skip á ströndinni meðan orrustan stendur og meðan það er að koma í ljós hvert af þessum félögum nær til sín þessum flutningum til frambúðar. Þó er það nú svo að jafnvel þó að þessi styrjöld standi þá eru einstakir staðir sem óvíst er um flutninga til og kem ég aðeins að því á eftir.
    Það sem frv. um Skipaútgerð ríkisins og sú aðgerð að leggja hana niður hefur í för með sér er að það er hætt að styrkja sjóflutninga á þeim leiðum sem Skipaútgerðin sigldi á áður. Það vekur náttúrlega upp spurninguna um hvort það sé stefnan til frambúðar, jafnvel þó að það verði ekki á þessu ári. Ég geri mér grein fyrir því að þau fjárlög sem nú eru gilda en það er mikil grundvallarspurning hvort það verði áfram haldið á þessari braut. Hæstv. samgrh. hefur sagt að þessi mál verði að endurskoða árlega og auðvitað eru þau skoðuð við hverja fjárlagagerð, ég geri mér grein fyrir því. En þessi aðgerð og ekki síst hvað hér er gengið hreint til verks opnar auðvitað leiðina til að kippa ríkisstyrk til sjóflutninga til baka. Hann hefur verið afnuminn á þeim leiðum sem Skipaútgerð ríkisins sigldi á áður en það eru enn þá verulegir ríkisstyrkir til flutninga í þessu landi. Það hefur verið stefna stjórnvalda hingað til að reyna að greiða fyrir flutningum um landið og talinn ákveðinn þáttur í því að halda byggð og eðlilegum samgöngum við einstaka landshluta. Það er alveg nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því nú þegar við ræðum um að leggja Skipaútgerðina niður fyrir fullt og allt og ljúka hennar sögu að þessi aðgerð ryður brautina að þessu leyti.
    Áhrifin á verðlagsþróunina eru auðvitað óljós enn þá, það er engin reynsla komin á það mál. Ég reikna með að það sé rétt sem hæstv. samgrh. segir að það hafi ekki orðið hækkun á flutningstöxtum enn sem komið er. Hins vegar er alveg óvíst með hverjum hætti það verður í framtíðinni. Varðandi skipakost á ströndina þá hefur ákaflega lítil hagræðing orðið. Þessi tvö skipafélög hafa jafnmörg skip á ströndinni núna og þrjú höfðu áður þannig að kostnaður hefur ekki minnkað mikið að því leyti. Þessi kostnaður leggst á flutningana sem heild. Hann kemur einhvers staðar fram. Það er alveg óvíst um það hver þróunin verður í þessum efnum og ég ætla ekkert að fullyrða um það á þessu stigi málsins. Það getur alveg farið svo að þegar fram í sæki hækki þessir flutningstaxtar og auki mismun á vöruverði á landsbyggðinni og á Reykjavíkursvæðinu.
    Eins og fram hefur komið ber þegar á því að ýmsir staðir, sem nefndir hafa verið hér í þessari umræðu, t.d. Norðurfjörður á Ströndum, og Samskip heldur áfram siglingum á enn þá, búa ekki við öryggi til frambúðar í þessum samgöngum. Það eru auðvitað fleiri staðir sem svo er háttað um. Í athugasemd við frv. stendur á bls. 8 eða á öftustu síðu í frv. að strandflutningaþjónusta hafi í höfuðatriðum haldist til þeirra byggða sem nutu þjónustu Skipaútgerðarinnar. Svo segir: ,,Helsta undantekning frá því er sú að ekki er beint, reglubundið siglingasamband frá Austfjarðahöfnum norður um til Norðurlandshafna. Á þeirri leið voru flutningar á árinu 1991 um tvö þúsund tonn, eða tæplega 2% af flutningum Skipaútgerðar ríkisins.``
    Mér finnst einhvern veginn sá broddur í þessari setningu að þetta magn sé það lítið að þess vegna þurfi ekki að sjá fyrir reglubundnum flutningum á milli þessara landshluta nema aðra leiðina. Það er nú svo að þessi 2.000 tonn sem þarna eru flutt á milli gætu verið einhverjar framleiðsluvörur frá Austfjörðum sem Austfirðingar eru að selja á Norðurlandsmarkað. Ég hef ekki í höndum upplýsingar um hvaða vörur þetta eru en allt eykur þetta á þægindin fyrir þá atvinnustarfsemi sem rekin er á Austfjörðum. Það sem verra er --- og það vitum við hæstv. samgrh. báðir þar sem þessi tvö kjördæmi liggja saman --- er að vetrarsamgöngur eru afar óöruggar á þessu svæði svo ekki sé meira sagt og liggja stundum alveg niðri þegar meðalvetur er, frá miðhluta Austurlands og suðurhluta Austurlands og norður. Ég segi það að vísu að hæstv. samgrh. hefur sýnt áhuga á því að bæta það samband og er það vel. Hann hefur verið baráttumaður í því og vil ég að það komi hér fram.
    Hins vegar vildi ég spyrja hæstv. samgrh., úr því að þetta ástand er nú svo að þarna eru engar reglubundnar samgöngur sjóleiðina nema aðra leiðina, hvort það væri ekki til athugunar að reyna að styrkja samgöngur á landi milli Norður- og Austurlands með því a.m.k. að koma mokstri um Möðrudalsöræfi og Mývatnsöræfi inn í snjómokstursreglur Vegagerðarinnar þannig að menn búi við eitthvert öryggi í þeim efnum. Ég hefði lagt það til og vil beina því til hæstv. samgrh. að hann leggist á sveif með okkur í því verði það til frambúðar svo að þessi stóru skipafélög treysta sér ekki til að halda samgöngum á þessari leið og Skipaútgerð ríkisins verður lögð niður.
    Það hefur komið fram að fólk hefur misst atvinnu sína við þessa aðgerð. Ef ég man rétt þá voru

um það fyrirheit fyrr í vetur í umræðum á Alþingi af hálfu hæstv. samgrh. og endurtekið nú af hæstv. fjmrh. að ríkisvaldið hefði einhverjar skyldur gagnvart þessu fólki. Ég vil spyrja hæstv. samgrh. hvernig útlitið sé með það að þetta fólk fái atvinnu við önnur störf og hvort eitthvað hafi miðað í því efni.
    Ekki er ástæða til að halda uppi löngum ræðum um þetta mál á þessu stigi. Það á eftir að fara til nefndar og hv. samgn. á eftir að skoða það þannig að tækifæri gefast til þess að taka það nánar til umræðu þegar það kemur frá nefnd. Ég ætla því ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. En ég beini því til hv. samgn. að kanna það vel og reyna að gera sér grein fyrir því hvaða útlit er á ströndinni, hvaða áhrif þetta hefur þegar til lengri tíma er litið á flutningstaxta á ströndina, því að það skiptir meginmáli. Eins og ég kom að í upphafi er engin reynsla komin á þetta mál enn þá og ekkert hægt að segja um hvort þessi aðgerð hafi tekist vel, eins og hæstv. ráðherrar halda fram, eða hvort hún verður til þess að hækka flutningsgjöld á ströndina þegar fram í sækir og auka mismun á vöruverði og aðstöðumun í landinu.