Skipaútgerð ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 16:01:00 (6075)


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Ég hef reynt að fylgjast æðináið með þessari umræðu og er það kannski ekki óeðlilegt þar sem ég blandaðist inn í þessi mál á sínum tíma, var að reyna að gæta þar hagsmuna starfsfólks sérstaklega í allri þessari umræðu. En mig furðar raunar ekki á því að hv. þm. Guðrún Helgadóttir telji svörin heldur mögur hjá hæstv. ráðherra, það tel ég líka.
    Það er upplýst að nefndin muni fara mjög í saumana á öllum þessum málum en eftir minni, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, eftir mínu minni hygg ég ekki að það hafi verið aðalatriðið í huga og gerðum hæstv. ráðherra að fara að einkavæða. Ég held að hans hugur hafi staðið til þess að Eimskipafélagið eignaðist þetta fyrirtæki og varla var um annan kaupanda að ræða því að önnur skipafélög hafa --- mér liggur við að segja, eins og með Hafskip --- verið gerð gjaldþrota. Það hafi ekki orðið það nema vegna þess að það var gert það og því var ekki veitt sú sama staða í þjóðfélaginu og t.d. Eimskipafélaginu. Ég held að það sé rétt að hugurinn hafi verið sá að Eimskipafélagið gæti keypt þetta góss og þar með væri komin einokun á innanlandssiglingar eins og utanlandssiglingar. Þetta var það sem mér fannst vera unnið að og ég held að ég verði að segja það vegna þess að allir þingmenn væntanlega vita að ég barðist gegn því og fyrir því að Samskip kæmi þarna sem eignaraðili að einhverjum af eignum Ríkisskipa til þess að forða því að einokun yrði í strandsiglingum.