Húsnæðisstofnun ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 16:33:00 (6084)

     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Frv. sem ég hef leyft mér að flytja hér, fjallar um innheimtu og ábyrgð á skyldusparnaði ungmenna en sá skyldusparnaður er bundinn í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins í sérstökum kafla þeirra laga þar sem fjallað er um það hverjum er skylt að spara. Meginatriðin í þeim kafla eru þau að almenna reglan er sú að öll ungmenni á aldrinum 16--26 ára eru skyld að leggja til hliðar 15% af launum sínum. Hins vegar hafa af einhverjum ástæðum ekki verið sett í lög úrræði fyrir þann aðila sem falið er að innheimta skyldusparnaðinn, Húsnæðisstofnun ríkisins, til að innheimta þennan skyldusparnað.
    Í svari félmrh. við fsp. frá mér til hæstv. félmrh. 13. febr. sl. kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:
    ,,Í öðru lagi er spurt um hvernig fylgst er með því að launagreiðendur geri skil á skyldusparnaði. Húsnæðisstofnun hefur engin ákveðin úrræði til að knýja fram greiðslur í samræmi við nefnd lög og reglugerð ef upplýst er um vanskil til stofnunarinnar. Hér er um að ræða afleidda lögtaksheimild og stofnunin óskar opinberrar rannsóknar á meintum vanskilum. Lögtaksbeiðnir og kærur byggjast svo til eingöngu á upplýsingum frá launþegum enda verða þær að vera staðfestar á launaseðlum eða launamiðum. Stofnunin hefur að lögum engar heimildir til að knýja fram upplýsingar frá launagreiðendum eða frá skattyfirvöldum um það hvort eða hvar fólk á skyldusparnaðaraldri er að störfum og hver skil ættu að vera í krónum talin. Það er því fyrst og fremst launþeginn sjálfur sem verður að fylgjast með því hvort skil hafa verið gerð frá launagreiðanda.``
    Staðan er sú, virðulegi forseti, að hin raunverulega skylda eða kvöð hvílir á skyldusparandanum sjálfum að fylgjast með því hvort launagreiðendur skili því fé sem þeir hafa haldið eftir af launum þeirra. Eðlilega er það afar erfitt mál að fylgjast með því hvort fénu sé skilað og að knýja á um að svo verði gert hafi þeir vitneskju um að dregist hafi að gera skil. Þau eru því miður allmörg dæmin sem ég veit um að ungmenni hafi veigrað sér við að ganga hart á eftir því að launagreiðandi skilaði skyldusparnaðinum áfram af ýmsum ástæðum sem ég vil ekki tíunda hér. Eitt vil ég þó nefna og það er að hið fámenna samfélag gerir þennan eftirrekstur ungmennanna ákaflega erfiðan oft og tíðum. Hér er líka um að ræða mismunun milli þeirra ungmenna sem starfa hjá ríki og ríkisstofnunum annars vegar og einkageiranum hins vegar. Það er sérstaklega kveðið á um það í reglugerð að ríkissjóður eða fjmrh. ábyrgist að gerð séu skil á skyldusparnaði fyrir ríkisfyrirtækin. Áhættan í þessu efni er því hjá þeim ungmennum sem eru á hinum almenna vinnumarkaði.
    Með þessu frv. vil ég leitast við að bæta úr í þessum efnum því það er að mínu viti réttlætismál,

fyrst það ákvæði er í lögum og löggjafinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að það sé skynsamlegt að ungmenni leggi til hliðar fé sem síðar meir eigi að nýtast til íbúðarkaupa, að þá séu jafnframt veittar í lögum þær tryggingar sem duga fyrir þessi sömu ungmenni svo að þau eigi ekki á hættu að tapa sínu fé sem því miður hefur gerst og því miður heldur í vaxandi mæli síðustu missiri en það er eðlileg afleiðing af auknum gjaldþrotum í atvinnulífinu.
    Húsnæðisstofnun ríkisins hefur haft nokkrar áhyggjur af þeirri stöðu að vera samkvæmt lögum sá aðili sem ber að innheimta en hafa ekki til þess þau lagalegu úrræði sem til þarf. Húsnæðismálastjórn lét semja á sínum tíma frv. til laga til úrbóta í þessu efni og sendi frv. í febrúar 1991 eða fyrir tæpum 15 mánuðum til hæstv. félmrh. með ósk um það að málið yrði flutt. Því miður hefur hæstv. félmrh. ekki orðið við þessari ósk stofnunarinnar um að flytja málið og hefur þar með sýnt ótrúlegt áhugaleysi á hagsmunamálum ungmenna. Ég hef því leyft mér að taka frv. upp á hinu háa þingi og flytja það í þeirri von að þingheimur taki vel á móti því og fallist á röksemdirnar og geri það að lögum hið allra fyrsta.
    Áður en ég vík að efnisatriðum frv. vil ég stuttlega gera grein fyrir því hversu mikið fé skyldusparnaður er, bæði fyrir einstaklinga og Húsnæðisstofnun ríkisins. Um síðustu áramót voru á innstæðum hjá Húsnæðisstofnun ríkisins 4,1 milljarður kr. í skyldusparnaði. Hér er því um að ræða gífurlegt fé. Síðustu ár hefur verið greitt út árlega af skyldusparnaði ívið meira en það sem inn hefur komið. Í sjálfu sér hefur ekki orðið um fjármögnunarfé fyrir stofnunina að ræða þessi ár en engu að síður mundi það valda stofnuninni miklum erfiðleikum ef menn ætluðu að afnema skyldusparnað og greiða hann út því að það mundi þýða að 4,1 milljarður færi út úr stofnuninni á örfáum árum og þá yrði ríkisvaldið að gera sérstakar ráðstafanir til að útvega stofnuninni fé í staðinn. Ég tel ekki líklegt að breytingar verði á þessu fyrirkomulagi einfaldlega af þessari ástæðu og reyndar eru svo fleiri ástæður sem menn geta rökrætt um en ég læt ógert enda að nokkru óskylt efni þessa frv. Samtals voru það um 40 þús. einstaklingar sem áttu innstæður í stofnuninni um síðustu áramót að upphæð 4,1 milljarður kr.
    Almennt má segja um innheimtu að hún er nokkuð góð. Af þessari háu fjárhæð má segja að hlutfallslega innheimtist nokkuð hátt hlutfall en það ber líka að líta á hitt að hvert 1% sem innheimtist ekki er líka mjög há tala og tilfinnanleg fyrir þá sem fyrir því verða. Vanskil í stofnuninni eða þau vanskil sem stofnunin hafði til meðferðar fyrir skömmu námu um 25 millj. kr. og því miður vegna þessa úrræðaleysis, sem stofnunin býr við samkvæmt núgildandi lögum er svo víðs fjarri því að hún fái til meðferðar öll þau mál sem þangað ættu að fara til innheimtu. Það er ekki hægt að gera sér grein fyrir því hversu háar fjárhæðir eru í vanskilum en ekki í innheimtumeðferð hjá stofnuninni en menn hafa áætlað að það muni vera a.m.k. tvisvar sinnum hærri upphæð en er þar til innheimtu. Því má leiða líkum að því að það sem er útistandandi í vanskilum sé einhvers staðar á bilinu 70--90 millj. kr. þó að vissulega sé nokkur óvissa í þessum tölum.
    Ég vil líka minna á frétt í Þjóðviljanum sem birtist 21. des. 1991 þar sem fram kemur í viðtali við lögmann Húsnæðisstofnunar að fjárdráttur á skyldusparaði sé ótrúlega algengur og að það sé algengt að menn færi sér í nyt andvaraleysi unglinga sem eru nýkomnir út á vinnumarkaðinn og gera þau mistök að treysta á að vinnuveitandinn taki ekki þennan hluta launanna til reksturs fyrirtækisins eins og segir í viðtali við lögmanninn.
    Frv. er ætlað að bæta úr þessari slæmu stöðu og setja í lög um Húsnæðisstofnun ríkisins úrræði til þess að innheimta þessar fjárhæðir og úrræði fyrir skyldusparendur til að tryggja að þeir fái þó sínar greiðslur hvernig svo sem innheimtunni reiðir af. Í fyrsta lagi er lagt til að 102. gr. laganna orðist svo, með leyfi forseta:
    ,,Launagreiðandi, sem vanrækir að taka skyldusparnað af starfsmanni samkvæmt lögum þessum eða vanrækir að skila því sem hann hefur tekið af launum starfsmanna sinna, skal sæta sektum allt að 1.500.000 kr. miðað við grunn lánskjaravísitölu í mars 1992. Hámark sektar fylgir lánskjaravísitölu.
    Sé um refsivert brot að ræða skal launagreiðandi jafnframt sæta refsiábyrgð samkvæmt almennum hegningarlögum.``
    Með þessu er sett inn í lagagreinina sektarákvæði og refsiábyrgð til þess að þrýsta á um greiðslu.
    Í 2. gr. frv. er lagt til að ný grein komi á eftir 102. gr. þar sem kveðið verði á um ríkisábyrgð á skyldusparnaði og lögtaksrétt fyrir ríkissjóð til að innheimta þá kröfu sem hann fær til meðferðar. Meginefni greinarinnar er á þann veg að sé ekki búið að gera skil á skyldusparnaði innan tveggja mánaða geti launþegi óskað eftir innlausn kröfunnar hjá félmrn. eða þeim aðila sem ráðuneytið hefur samið við um að annast slík mál. Sá aðili sendi þá út áskorun til launagreiðandans um að greiða skuldina en sinni launagreiðandinn ekki þeirri áskorun innan tveggja mánaða þaðan í frá þá fái skyldusparandinn greiðslu eða ríkissjóður greiði inn á reikning skyldusparanda hjá Húsnæðisstofnun ríkisins þá kröfu sem um er að ræða. Þar með hefur ríkissjóður tekið við málinu til innheimtu og í lagagreininni er lögð til sú breyting til að tryggja innheimtumöguleika ríkissjóðs að kröfunni fylgir lögtaksréttur, sbr. lög nr. 29/1985.
    Ég er ekki viss um að þessari lagabreytingu fylgi mikil útgjöld fyrir ríkissjóð því að ég hygg að hann muni ná megninu inn af þeim kröfum sem hann muni fá til meðferðar. Engu að síður, þótt um einhver útgjöld kunni að vera að ræða verði þessi háttur hafður á, er það óverjandi réttarstaða fyrir skyldusparendur að búa við það að vera skylt að leggja til hliðar án þess að hafa tryggingu fyrir því að féð glatist ekki. Það er ekki annað rökrétt, virðulegi forseti, en að löggjafinn, sem sett hefur lög um skyldusparnað, setji jafnframt lagaákvæði til að tryggja rétt þeirra sem hann hefur gert skylt að spara.
    Ég vil svo, virðulegi forseti, leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.