Lánasjóður íslenskra námsmanna

137. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 12:33:00 (6151)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Sú tillaga sem hér er flutt gerir ráð fyrir því að fella niður heimild fyrir stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna til að leggja á lántökugjöld, aukavexti, aukaskatt, á námslán. Minni hlutinn leggur það til að þessi tillaga verði felld út. Verði hún hins vegar samþykkt hafa orðið hér í dag stór tíðindi. Verði stefna meiri hlutans samþykkt hafa orðið þau stórtíðindi að í fyrsta lagi hefur verið fellt að taka inn ákvæði um jafnrétti til náms. Í öðru lagi hefur verið ákveðið að loka Lánasjóði ísl. námsmanna í haust alveg. Enginn íslenskur námsmaður fær lán í haust samkvæmt þessum ákvörðunum meiri hlutans. Í þriðja lagi hefur verið samþykkt að leggja vexti á námslán. Og í fjórða lagi er hér verið að gera tillögu um það frá meiri hlutanum að leggja á lántökugjöld líka.
    Þessa dagana er tíu ára afmæli laganna um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það er athyglisvert að Alþfl. skuli kjósa að halda upp á þetta afmæli með því að eyðileggja þessi lög framfara í menntun, rannsóknum og vísindastarfsemi í landinu.
    Ég segi já við þessari tillögu, virðulegi forseti, um leið og ég gagnrýni harðlega meiri hlutann fyrir þau skemmdarverk sem hér hafa verið unnin.