Umræður um skýrslur

137. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 14:20:00 (6167)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt áætlun um störf Alþingis, þessa löggjafarþings, hafði verið gert ráð fyrir að þinghaldi lyki um aðra helgi, eftir u.þ.b. viku. Ekki liggur enn fyrir með hvaða hætti þinglok nást, en hins vegar liggur fyrir að þó nokkur fjöldi þingmála einstakra þingmanna t.d. er óræddur og hefur ekki komist til nefnda. Ég vil fyrir mitt leyti ekki gera neina athugasemd við dagskrá þingsins í dag en benda hæstv. forseta á, sem henni er vafalaust ljóst, að tíminn er knappur og jafnframt það að við alþýðubandalagsmenn eigum hér fyrirliggjandi þrjár skýrslubeiðnir sem eru óræddar. Samkvæmt þingsköpum ber að ræða skýrslur þegar þær eru tilbúnar.
    Þær skýrslur sem hér um ræðir eru: Skýrsla um málefni íslensks iðnaðar, sem iðnrh. hefur lýst sig reiðubúinn til að ræða. Það er skýrsla um stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum aldraðra, sem er vitaskuld málefni heilbrrh. Mér skilst að hann sé farinn utan, en auðvitað gæti staðgengill hans tekið þátt í þeirri umræðu. Og loks er það skýrslubeiðni um sjávarútvegsmál sem þingflokkur Alþb. lagði fram fyrir nokkrum vikum þar sem við fórum fram á að málið yrði tekið fyrir, annaðhvort samkvæmt skriflegri eða munnlegri skýrslu hæstv. sjútvrh. Hæstv. sjútvrh. hefur lýst því yfir úr þessum ræðustól, ef ég man rétt, eða í tengslum við umræður sem fóru fram hér að hann væri reiðubúinn að ræða um þessa skýrslu hvenær sem er núna næstu daga. Menn þekkja hvernig ástandið er í sjávarútveginum, hafa heyrt fréttir frá aðalfundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna í gær þar sem talað er um 10% halla á vinnslunni um þessar mundir. Hér er með öðrum orðum um gífurlega alvarlegt og óvenjulegt ástand að ræða og þess vegna teljum við þingmenn Alþb. að það sé óhjákvæmilegt að hér fari fram almenn og ítarleg umræða um sjávarútvegsmálin áður en þinginu lýkur.
    Ég bendi hæstv. forseta á þessi atriði og fer fram á það fyrir hönd þingflokksins að það verði skapað svigrúm til þess í umræðunni næstu daga að þessar skýrslur fáist ræddar með eðlilegum hætti og í samræmi við ákvæði þingskapa.