Flugmálaáætlun 1992--1995

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 14:01:42 (6234)


     Egill Jónsson :
    Herra forseti. Við meðferð þessa máls í þinginu, umfjöllun á flugmálaáætlun, var brugðið þeim vana sem gilt hefur að þingmannahópar hvers kjördæmis fjölluðu um málefni síns kjördæmis. Og með því að ekki voru lagðar fram neinar skýringar í þessum efnum kom sú afgreiðsla sem uppi var í þessu máli mér afar mikið á óvart. Í tillögum til flugmálaáætlunar var ekki gerð tillaga um að þverbrautar við flugvöllinn á Hornafirði væri þar getið. En það er kannski vert að rifja það upp að hún var ein af þeim framkvæmdum sem sérstaklega var getið á fyrstu flugmálaáætluninni og var framarlega í framkvæmdaröð á þeirri áætlun.
    Af þessari ástæðu höfðu þingmenn Austurlands ekki möguleika á því að fjalla formlega um þessi mál, en það var hins vegar sæst á það, og ég gat þess t.d. í mínum þingflokki, að í staðinn fyrir tækjageymslu eins og var í upphaflega textanum kæmi þverbraut. Rökstuðningurinn fyrir þessu var afskaplega einfaldur því að það er búið að byggja tækjageymsluna. Tækjageymslan var m.a. byggð fyrir fjárveitingu sem var á síðustu flugmálaáætlun til þverbrautar á Höfn í Hornafirði eins og flugvöllurinn er nú gjarnan kenndur við þó að hann sé í öðru sveitarfélagi. Það var því sjálfsagt mál að breyta þessu. Við þá litlu umfjöllun sem fram fór á milli mín og Flugmálastjórnar, þess embættismanns sem fjallaði sérstaklega um málið að þessu sinni, kom fram að hann vissi ekki að það var búið að byggja tækjageymsluna. Með öðrum orðum, þegar flugmálaáætlunin var lögð fram er eins og það hafi ekki verið alveg ljóst hjá a.m.k. öllum embættismönnum og ráðuneytismönnum að það var búið að byggja þessa tækjageymslu. Hún reis á sl. hausti. Þá voru höfð um það samráð, t.d. við mig, hvort þingmenn kjördæmisins gætu ekki fallist á að færa fé frá þverbrautarfjárveitingunni yfir í tækjageymsluna og það var gert. Það er þess vegna alveg óþarfi að geta þarna um tækjageymsluna nema því fylgi einhver sérstakur ásetningur. Ef það er svo að sérstaklega á að geta tækjageymslunnar í þessum efnum er það sjálfsagður hlutur að setja þar inn rétta tölu þannig að ef eitthvað stendur út af ógreitt varðandi tækjageymsluna verði rétt tala sett þar inn og flugbrautarframkvæmdin verði svo mörkuð með því sem eftir kann að vera af þessari fjárveitingu sem ég hygg að sé að mestu leyti og kannski alveg ósnert.
    Með því að hv. samgn. hefur ekki séð sér fært að taka tillit til þessara ábendinga og nú vill svo til að hér er frídagur í stofnunum og þar af leiðandi ekki um það að ræða að ég geti náð trúverðugum upplýsingum til að gera brtt. við þessa flugmálaáætlun fer ég þess eindregið á leit við hæstv. forseta að þessari umræðu verði frestað og því tel ég að ég eigi reyndar þinglegan rétt á með tilliti til þess hvernig málið ber að.