Almenn hegningarlög

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 15:12:15 (6299)


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Herra forseti. Það hefur lengi beðið að endurskoða íslensku hegningarlögin. Þegar þau eru lesin er mjög augljóst hvað þau eru gömul að stofni til og þá ekki síst sá kafli sem hér er einkum til umræðu.
    Mér finnst umræðan sem hér hefur farið fram bera þess nokkurn vott hversu lítið menn vita í rauninni um ástand þessara mála hér á landi. Þetta vekur þá hugsun hjá mér hversu brýnt það er að kanna útbreiðslu vændis hér á landi, af hvaða tegund það er og af hvaða orsökum. Vændi er í fræðibókum skipt niður í mismunandi greinar. Það er talað um fínt vændi og ófínt vændi, götuvændi og hins vegar vændi sem fer fram á mjög skipulagðan hátt ýmist af hálfu einstaklinga eða það er skipulagt í stórum stíl. Eins og kom fram hjá formanni allshn. er verið í þessum lögum að hugsa um að koma í veg fyrir innflutning á vændi en það er fyrirbæri sem hefur borið nokkuð á í ýmsum löndum. Ég get nefnt það að ég var nýlega á fundi í Valencia á Spáni þar sem var verið að fjalla um fólksflutninga, löglega og ólöglega. Þar kom fram að á Spáni er innflutningur á konum frá Marokkó ákveðið vandamál. Það væri ákaflega fróðlegt að fá að vita hvort hér á landi er um slíkan innflutning að ræða. Úr því að dómsmálaráðherra er kominn í salinn vil ég beina þeim tilmælum til hans að hann láti framkvæma könnun á því hversu víðtækt vændi er

hér á landi og af hvaða gerð það er.
    Mér er kunnugt um að fyrir allnokkrum árum var gerð könnun á þessu en hún var auðvitað mjög takmörkuð. Þetta er erfitt mál að fást við en ég hef grun um og hef fyrir mér orð fólks, sem vinnur við barnaverndarmál og mál tengd unglingum sem eiga í erfiðleikum, að vændi sé útbreiddara en við gerum okkur kannski grein fyrir.
    Það kom fram hjá formanni allshn., hv. þingkonu Sólveigu Pétursdóttur, að Danir og Svíar væru að herða sín lög hvað þetta varðar. Það kemur mér mjög á óvart því að stefnan hefur víðast hvar verið sú að slaka á þessum lögum og reyna frekar að taka á hinum félagslegu þáttum. Það hefur stundum verið sagt að vændi væri ein elsta atvinnugrein í heimi og það er þekkt allt frá dögum Súmera fyrir 5--6 þús. árum að vændi tíðkaðist þar og þá einkum með þeim hætti að konum var rænt. Nú segi ég konum en það vill svo til að kannski er mesta breytingin sem orðið hefur varðandi vændi á undanförnum árum sú, og þá er ég að vísa til Evrópu og ekki síst Norðurlandanna, að það eru ungir drengir sem stunda vændi. Þess vegna finnst mér að taka þurfi það til athugunar í þessum lögum að það er auðvitað ekki bara verið að tala um karl og konu. Það er líka verið að tala um tvo karlmenn. Ég vil beina því til nefndarinnar að hún athugi textann út frá þessu sjónarmiði. Það er miklu minna um það eftir því sem ég hef lesið að það sé um vændi að ræða þar sem tvær konur eiga í hlut. Þó er það eflaust til.
    Hér var komið nokkuð inn á tungumálið og það vill svo til að tungumálið er eitt af því sem mótar vitund okkar og skilning á samfélaginu. Lagatexti er auðvitað hluti af því og okkar tungumál er ákaflega karlstýrt, rétt eins og þjóðfélagið, það hafa verið gerðar miklar rannsóknir á þessu. Lögin bera auðvitað svip af því og þess vegna tel ég rétt að reyna einmitt að breyta lagatexta þannig að hann höfði til beggja kynja. Ég get tekið undir það sem fram kom í máli hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að þegar maður les lagatexta og ýmsa aðra texta fær maður þá tilfinningu að það sé alls ekki verið að tala um konur heldur aðeins karla.
    Þegar við í þingflokki Kvennalistans ræddum hugsanlegar breytingartillögur á hegningarlögunum komum við með þá uppástungu að í stað orðsins ,,hann`` væri sagt ,,hann eða hún``. Það væri því ljóst að verið væri að vísa til beggja kynja og ég held að það sé miklu nær þeim raunveruleika sem við búum við í þessum efnum.
    Að lokum, herra forseti, vil ég ítreka það sem ég sagði að mér finnst þessi umræða vera nokkuð gamaldags og bera þess vott að menn viti ekki alveg um hvað málið snýst. Ég tel það ekki ásættanlegt að refsað sé fyrir það að selja líkama sinn en þeir sem kaupa séu ekki beittir neinum refsingum. Ég get nefnt það hér að víða erlendis hafa kvennahreyfingar stundað það að ná niður bílnúmerum og nöfnum á þeim sem kaupa sér slíka þjónustu til þess að vekja athygli á því að það er ekki einn sem á að refsa, ef menn vilja refsa, heldur tveir. Ég tel að það sé frekar ástæða til að slaka á í þessu efni. Vændi er oftast neyðarúrræði, úrræði til að sjá sér farborða en þó sýna rannsóknir að æ meira er um það að vændi sé stundað að eigin vali og án þess að viðkomandi finnist neitt athugavert við það. Þarna erum við náttúrlega komin að grundvallarspurningum um siðferði og hugmyndum okkar um siðferði.
    Ég vildi koma þessum athugasemdum á framfæri og ég skora á dómsmálaráðherra að láta kanna þessi mál. Ég beini því til nefndarinnar að hún íhugi nú enn einu sinni þá orðanotkun sem hér á sér stað.