Samningur um réttindi barna

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 19:10:07 (6352)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. beindi til mín fáeinum fyrirspurnum. Hin fyrsta var um sérstaka yfirlýsingu sem boðuð er í greinargerð vegna ákvæða samningsins um tvennt, annars vegar endurmat dómstóla og ákvörðun stjórnvalda um forsjá barna og hins vegar um aðskilnað ungra fanga frá eldri föngum. Efnisinntak þessarar boðuðu yfirlýsingar er skýrt mjög ítarlega, annars vegar í athugasemd með 9. gr., um endurmat dómstóla á úrlausnum stjórnvalda um forsjá barna. Sérstök athygli skal vakin á því að í frumvarpi til barnalaga sem liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir að deilur foreldra um forsjá lúti úrlausnum dómstóla nema báðir foreldrar óski eftir því að dómsmálaráðuneytið leysi úr málinu. Hin greinin, sem búið er að samþykkja, er 37. gr. þar sem rækilega er gerð grein fyrir því af hverju fyrirvari var gerður af Íslands hálfu að því er varðar spurninguna um aðskilnað ungra fanga frá eldri föngum. Þetta er því að fullu skýrt í greinargerð.
    Ef spurt er um yfirlýsinguna sjálfa, þá hefur hún enn ekki verið orðuð nákvæmlega vegna þess að endanlegt orðalag hennar fer nokkuð eftir því hvernig á þessum málum er tekið í barnalögum.
    Að því er varðar aðra spurningu með vísan til 42. gr. um kynningu málsins, þá mun verða óskað eftir samstarfi við menntamálaráðuneytið um það. Að því er varðar Haag-samninginn er svarið þetta: Það hefur ekki verið tekin formleg stjórnvaldsákvörðun um aðild að honum en þjóðréttarfræðingi utanríkisráðuneytisins er falin undirbúningur að því að við gerumst aðilar að honum. Það er eftir að leggja það mál fyrir ríkisstjórn og Alþingi.
    Að því er varðar þá fullyrðingu að það hefði haft einhver áhrif á lausn viðkvæms deilumáls hér varðandi forræðismál, sem snertir íslenska og tyrkneska ríkisborgara, þá læt ég í ljós þá skoðun mína að svo hefði ekki verið eftir að hafa kynnt mér það mál.
    Því næst var spurt um 22. gr. að því er varðar stöðu barna flóttamanna vegna orðalagsins: ,,Gera má ráð fyrir að framkvæmd alþjóðlegra skuldbindinga Íslands vegna flóttamanna verði í framtíðinni í samræmi við þetta ákvæði.`` Orðalagið er varfærið og kannski varfærnara en efni standa til. Það verður trúlega niðurstaðan.
    Að því er varðar 40. gr., þ.e. þau ákvæði í henni sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði til um sérstakar stofnanir fyrir börn sem eru grunuð, ásökuð eða hafa verið fundin sek um refsilagabrot og einkum ákveða þann lágmarksaldur sem börn verða að hafa náð til þess að vera talin sakhæf og í öðru lagi gera, þegar það á við og þykir henta, ráðstafanir til að fara með slík börn án þess að leita til dómstóla, enda sé mannréttinda og lögverndar gætt að fullu sem er meginatriði þessa máls. Það lýtur þá að því er framkvæmdina varðar að viðeigandi ákvæðum barnaverndarlaga hér á landi.