Atvinnuleysistryggingasjóður

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 13:28:00 (6516)


     Svavar Gestsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Já, ég tel mjög mikilvægt að þetta mál fari til hv. heilbr.- og trn., en það er bersýnilega óhjákvæmilegt að þingið undirbúi að það verði afgreitt frv. til fjáraukalaga. Ég treysti ekki ríkisstjórninni til að tryggja að það verði borgaðar út atvinnuleysisbætur í sumar ef ekki eru til þess fjármunir. Ég treysti henni ekki til þess. Það getur vel verið að það séu einhverjir aðrir hér í salnum sem treysti ríkisstjórninni til þess. Ég geri það ekki. Hún er þegar búin að svíkja þrjú af tíu eða tólf yfirlýsingaatriðum með kjarasamningum verkalýðshreyfingarinnar. Það liggur þegar fyrir að því er varðar opinbera starfsmenn og að því er varðar vexti og fleiri þætti þannig að það er útilokað annað fyrir stjórnarandstöðuna en að gera kröfu til þess að ríkisstjórnin gangi frá því að það verði sett fjáraukalög a.m.k. um þau atriði sem snúa að verkalýðshreyfingunni og eiga að koma til framkvæmda í sumar. Ríkisstjórninni er ekki treystandi fyrir því. Auðvitað ætti ekki að ljúka þessu þingi öðruvísi en frá fjáraukalögum verði gengið. Og ef ríkisstjórnin hefur ekki rænu á því að koma saman frv. til fjáraukalaga sjálf er auðvitað hægt að hjálpa henni við það og reyna að leita leiða til að tryggja því máli stuðning á Alþingi.