Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 20:52:00 (6593)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þingmaðurinn sagði að það væri engin ástæða til að breyta grunnframfærslunni. Ég hef margtekið það fram í þessari umræðu að það er ekki ætlunin að breyta grunnframfærslunni. Það sem við erum að gera er að við erum einmitt að koma í veg fyrir að það þurfi að skerða grunnframfærsluna. Það er það sem við erum að gera. Er ekki nokkur lífsins leið að koma þessu inn í höfuðið á hv. þm.? Ég veit það ekki. Ég er búinn að reyna og ég fer að halda að mér takist það ekki. Það er alveg sama hvað oft er sagt þetta sama. Það virðist alls ekki ganga.
    Ég er líka búinn að skýra það út hver viðbótarútgjöldin verða vegna þess að lánað er fyrir vöxtunum og ég nefndi að það gætu orðið 35--40 millj., en ég hef líka nefnt að sjóðurinn muni hafa hagræði af því að geta frestað lántökum við það að haustlánin færast yfir áramót þannig að sjóðurinn hefur þar hag á móti og þessi hagur verður fluttur að langmestu leyti ef ekki öllu til viðskiptamanna sjóðsins.