Lánasjóður íslenskra námsmanna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 21:27:00 (6599)


     Guðrún Helgadóttir (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Aðeins til þess að menn skilji hvernig vinnulag er á hinu háa Alþingi á þessu kvöldi. Hér höfum við setið mörg okkar og flest síðan 8 og 9 í morgun þegar nefndarfundir hófust. Við erum búin að vera hér kvöld eftir kvöld fram á nótt og að mestu fjallað m.a. um það mikilvæga mál sem frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna er sem fólk hafði ærið fyrir að setja sig inn í. Nú af einhverjum undarlegum ástæðum á að hætta þessari umræðu í bili og hvað ætlum við að fara að gera? Hvað er ætlast til þess að við förum að gera nú kl. 9.30 að kvöldi? Jú, það er að koma úr nefnd nál. um frv. til laga um Háskólann á Akureyri. það er frv. í 16 greinum. Treysta menn sér til að setja sig inn í það nál., ræða um framtíð og uppbyggingu Háskólans á Akureyri? Ég verð að segja að starfskraftar mínar eiga sér einhver takmörk og ég held að ég geti lítið lagt til þeirra mála í kvöld og ég hygg að svo sé um fleiri. Það er að vísu afar misjafnt, hæstv. forseti, hvað menn hafa verið mikið í húsinu þessa daga, en ég held að a.m.k. við sem höfum verið hér allan tímann hljótum að mótmæla því að eiga nú að fara að hefja umræður um ekki minna mál en Háskólann á Akureyri. Eða stóð kannski aðeins til að lesa nál. frá nefndinni og gera ráð fyrir að engar umræður yrðu um það mál? Ég spyr: Hvers konar vinnulag er þetta? Væri þá ekki nær að ljúka þá þessari dapurlegu umræðu um Lánasjóð ísl. námsmanna svo menn geti farið að afgreiða það mál í staðinn fyrir að rjúka yfir í allt annað mál. Og ég spyr hæstv. forseta: Er kannski búið að gera eitthvert samkomulag líka um að menn skuli ekki vera að eyða tíma þingsins eins og hæstv. forsrh. kallar umræður hér, er kannski líka búið að semja um að Háskólinn á Akureyri komi okkur ekkert við heldur?