Fjarvera ráðherra

145. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 00:01:00 (6620)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég benti á það í ræðu minni áðan að það væri svolítið einkennilegt að stjórn þingsins ætlaðist til þess að hér ynnu þingmenn næturlangt við afgreiðslu mála á lokaspretti vorþingsins en ráðherrar þurfa ekkert að láta sjá sig í þingsölum. Hér er hæstv. fjmrh. og stendur meira að segja uppréttur. Ég bendi sérstaklega á að hæstv. forsrh. taldi sig í sjónvarpsræðu frá Alþingi þess umkominn að lýsa ekki bara lengd á ræðu hv. þm. sem hann getur fengið uppgefið heldur efnisinnihaldi og ekki bara efnisinnihaldi sem hann getur lesið, sem ég hins vegar efast stórlega um að hann hafi gert, heldur lýsa íhygli, hyggjuviti og greind þeirra sem hafa verið að tala hér og vinna meðan hann er fjarstaddur. Nú gerist það að umræðu er slitið vegna þess að farið er fram á það einfalda atriði að ráðherrar séu viðstaddir og enda ekki á þá leggjandi, væntanlega ekki reiknað með því að þeir hafi til þess þrek eins og til er ætlast varðandi almenna þingmenn, að vera hér nótt sem nýtan dag við þingstörf til þess að þeim megi ljúka á þeim degi sem um hefur verið samið.