Afkoma landbúnaðarins

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 16:02:20 (6681)


     Árni Johnsen :

    Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þeirri stöðu sem við blasir í landbúnaði á Íslandi. Sá efnahagslegi samdráttur sem safnast hefur upp í íslensku þjóðfélagi á nokkurra ára bili með óstjórn í efnahagsmálum, sífelldum halla fjárlaga og stórvirkri söfnun erlendra skulda og nú síðast vegna verulegs aflasamdráttar hefur leitt til þess að það þrengir mjög að víða í sveitum landsins og kannski meira en víðast annars staðar í samfélaginu. Þetta er þeim mun erfiðara við að eiga þar sem allvíða í sveitum landsins eru tekjulægstu vinnusvæðin sem við þekkjum í okkar landi og einmitt þar er minnst svigrúm til að fá aðra vinnu, minnst svigrúm fyrir fólk til að bjarga sér á annan hátt en við hefðbundin landbúnaðarstörf. Þar er líka minnstur möguleiki til þess að fá raunvirði fyrir þær fasteignir sem menn hafa lagt líf sitt undir. Það eru 2.500 sauðfjárbændur á Íslandi í dag og þar af eru 80% eða um 2.000 sem eru undir vísitölubúinu, sem eru undir 300 ærgildum, en vísitölubúið er 440 ærgildi. Meðalbúið er líklega rúmlega 100 ærgildi. Svo veik er staðan. Og það segir mikla sögu.
    Það er að mínu mati mikil ástæða til að skoða þessi mál ofan í kjölinn. Það þarf lengri aðlögunartíma fyrir bændur og búalið að bregðast við en búvörusamningurinn gerir ráð fyrir. Ég hvet til þess að búvörusamningurinn og framkvæmd hans verði endurskoðuð með sérstöku tilliti til þeirra bænda og þess fólks sem stendur höllum fæti og það eru hundruð fjölskyldna í landinu.