Afkoma landbúnaðarins

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 16:09:31 (6684)



     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Agli Jónssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Ég þekki nú hjartað og hans hjartaslög dálítið glöggt eftir að hafa starfað með honum í landbn.
    Ég skildi hvern hann var að skamma í dag. Hann var að skamma ríkisstjórnina og sinn eigin flokk. Hann staðfesti það með því að segja að mistökin frá 1. sept. væru ein ástæðan. Hann gagnrýndi þröng viðhorf í stjórnkerfinu til landbúnaðarins. Hann kom inn á fleiri atriði. Hann var að skamma sinn flokk og sína ríkisstjórn fyrir að hún hafði ekki staðið við fyrirheitin frá því í kosningunum sem hún hét bændastéttinni og fólkinu í landinu. Það er nefnilega svo að Sjálfstfl. hefur eignast nýtt kjörorð: Segjum eitt og gerum annað.
    Hann kom líka inn á rof samningsgerðarinnar þegar tveir mánuðir af launum bænda á næsta ári skulu skertir. Ég ætla að biðja hæstv. landbrh. að skoða það vel hvort einhverjir fara ekki í tugthúsið út af því máli. Skyldi það ekki geta farið svo að slíkt samningsrof þýddi að menn fái á sig dóm? Ég hygg að bændastéttin muni kanna hvort það standist lög. Það er samningsrof sem ekki fær staðist. Þessu vil ég vekja athygli á.
    En hitt er annað mál að það eru atvinnumálin í heild og atvinnustefna þessarar ríkisstjórnar, hin dauða hönd sem á sinn þátt í þessu. Menn eru að koma inn sem ekki hafa verið í þessari framleiðslu í 5--6 ár vegna þess að önnur tækifæri hafa brugðist. Þess vegna koma þeir inn, þess vegna blasir við flöt skerðing hvað sauðfjárframleiðsluna varðar upp á 20--25%.
    Ég vil eigi að síður þakka hæstv. ráðherra þau viðbrögð að ætla að verja meira fjármagni til uppkaupa því að sannleikurinn er sá að flatur niðurskurður mun bitna það þungt á yngstu kynslóð bændastéttarinnar að hún verður að hverfa frá búum sínum og bitna á launalið.
    En eitt er alvarlegast í þessu máli og það er stefna ríkisstjórnarinnar því það voru fyrirheit um að innflutningur ætti sér ekki stað á landbúnaðarvörum. En hæstv. iðnrh. og viðskrh. og ríkisstjórnin öll ætla nú að hella yfir landbúnaðinn innflutningi á unnum landbúnaðarvörum.
    Þar með hef ég lokið máli mínu og þakka hv. málshefjanda fyrir að hafa vakið athygli á þeim aumingjaskap sem nú ríkir hjá ríkisstjórn Íslands.