Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

147. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 21:39:32 (6717)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Síðasti ræðumaður, hv. þm., sagði að ég hefði talað þindarlaust um sjóðamálin. Ég er nú ekki svo íþróttamannslega vaxinn eins og hann að geta talað þindarlaust, en það getur hann svo sannarlega, er einhver mesti ræðutalandi í þinginu og eru þó margir ágætir og góðir.
    Ég verð að gleðja hann eða hryggja hann eftir atvikum með því að segja honum að það hefur ekki verið neinn meiningarmunur á milli mín og hæstv. sjútvrh. um þetta mál. Og ég bendi honum á að fá útskrift af ræðu minni í þeim umræðum sem vitnað er til og ef hann les hana mjög gaumgæfilega sér hann þar setningar sem gátu bent til þess að hlutir eins og þessir væru í vændum. Ég bendi honum á að fá útskriftina og ég býst við að hann sjái að það var ekki loku fyrir það skotið að slíkt gæti verið að gerast þessa dagana einmitt, að slíkt væri í undirbúningi. En allt á sinn tíma. Þetta mál var ekki svo þroskað þá að það væri hægt að ræða það með þeim hætti þá. Það gerðu menn ekki.
    Í sjálfu sér tel ég ekki að þessi aðgerð breyti neinu í þeim deilum sem menn hafa áður átt, ekki þindarlaust en um töluverða hríð hér í þinginu, varðandi meðferð sjóða og annað þess háttar og ég ætla ekki í sjálfu sér að blanda mér í það. En ég get tekið undir með hv. þm. að auðvitað er það íhugunarefni að svo gott sem tæma sjóð af þessu tagi sem var markaðstekjujöfnunarsjóður, sveiflusjóður, og færa hann með þessum hætti í einu vetfangi yfir í það að jafna aflabrögðin, aflaleysið, og að því leytinu breyta honum í tekjujöfnunarsjóð hvað þennan þátt varðar. En ég tel fyrir mitt leyti að með þessu sé alls ekki verið að

segja síðasta orðið um þennan sjóð og er almennt séð hlynntur því að reynt sé að gæta þess í okkar sveiflukennda landi að slíkir sjóðir séu til staðar.