Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

147. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 01:22:26 (6744)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Fyrir það síðasta gleymdi þingmaðurinn línuritinu yfir síðustu ríkisstjórn. Hún var alltaf miklu lægri í öllum skoðanakönnunum í óvinsældum fram að þessu.

    En þessi hugvekja var mjög þörf og merkileg og mér þykir verst að svo margir þingmenn skuli vera farnir heim, en ég veit að þeir sitja yfir sjónvarpi hjá Sýn ef það er opið enn þá og sofa vel og dyggilega eftir þessa þörfu og góðu hugvekju. Ég vil líka þakka hv. þm. fyrir mörg góð og fögur orð í garð minnar ríkisstjórnar. Það örlaði á heilmikilli velvild og vinsemd og ég er þakklátur fyrir það.
    Varðandi skrif og teikningar, þá er ekki mikið sem er víst í henni tilveru, einkum þegar stjórnmálin eru annars vegar. En þeir forustumenn í stjórnmálum sem fá ekki mynd af sér hjá honum Sigmund eiga að fara að athuga með dagatalið sitt og jafnvel klukkuna sína því að þeir verða ekki mjög lengi í pólitík eftir það. Það er afskaplega mikilvægt fyrir íslenska stjórnmálamenn að fá að vera á myndum eftir Sigmund hvernig sem hann teiknar þá. Ég veit ekki hversu oft hv. þm., formaður bankaráðs Búnaðarbankans, hefur verið þar en þó nokkrum sinnum og farið bara vel.
    Ég vil þó nefna annað í fullri alvöru út af þessari löngu og þörfu hugvekju þingmannsins. Ég hafði gaman af, hann talar með öðrum hætti en flestir aðrir hér. Ég segi það alls ekki í niðrandi merkingu. Það er svolítið í prestslegum stíl og upphöfnum og ágætum. Þó að ég sé ekki alltaf sammála sumum stærstu orðunum sem hann lætur falla, eins og um helstefnu ríkisstjórnar og þess háttar, þá vil ég nefna við hann í fullri alvöru að það er mikilvægt fyrir ríkisstjórnir eins og þá sem nú situr að byrja á erfiðu verkunum fyrst. Þær ríkisstjórnir sem hafa byrjað á erfiðu verkunum fyrst og ekki hikað við að takast á við erfið verkefni, sem kalla á stundaróvinsældar, eru farsælar og langlífar í landinu.