Atvinnuleysistryggingasjóður

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 11:39:46 (6764)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það eru í sjálfu sér ágætis boðleiðir í Alþb. Hins vegar er það þannig í þessu mikla ati sem ríkisstjórnin stendur fyrir á Alþingi að mál eru kannski tekin fyrir áður en menn hafa haft aðstæður til að fara í gegnum öll þingskjöl. Hins vegar hlustaði ég gaumgæfilega á framsöguræðu hv. þm. og hann vék ekki einu orði að þessu atriði í sinni framsögu. Og það er svona almenn venja í þinginu þegar menn eru að ræða fyrir málum að gera það á þann hátt hvað snertir lykilatriði að það komi fram í framsöguræðum. Það er út af fyrir sig ágætt að þetta stendur í þingskjalinu, ég fagna því. En ég er satt að segja ekki miklu nær. Það stendur í nál., eins og hv. þm. las það upp, að þessi upphæð dygði þar til þing kemur saman á ný. Og ég vil spyrja: Er það ágústþingið? Eða er það tíminn í október? Ég hef nokkra reynslu af því hvað tekur langan tíma að koma fjáraukalögum í gegnum Alþingi. Það hefur yfirleitt tekið einn og hálfan til tvo mánuði. Það má vel vera að hægt verði að koma fjáraukalögum hraðar í gegnum þingið í næstu lotu. Ég vona það. Þessi langi tími, sem þingið hefur tekið til að afgreiða fjáraukalög, hefur verið of langur. Setjum svo að þingið komi saman 17. ágúst, það er nú búið að seinka því, og þá komi fjáraukalagafrv. seinni partinn í ágúst. Samkvæmt venju yrði það varla afgreitt fyrr en í september einhvern tímann. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjmrh., sem er einhvers staðar í húsinu: Er það þá ætlun ríkisstjórnarinnar að flytja fjáraukalagafrv. á ágústþinginu? Eða á að bíða þar til í október? Ég get fullvissað þingmanninn um það að upphæðin í Atvinnuleysistryggingasjóði mun ekki duga fram í október, það er alveg ljóst, hún mun ekki duga fram í október. Ef þetta á að vera í lagi þá hlýtur að vera reiknað með að fjáraukalagafrv. verði flutt í ágústmánuði. Og ég vil fá það alveg skýrt annaðhvort frá hv. þm. eða hæstv. fjmrh.: Á að flytja fjáraukalagafrv. í ágústmánuði?