Tilhögun þinghalds

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 17:33:30 (6845)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur að við erum komin í nokkuð mikinn vanda. Ég verð að biðja virðulegan forseta að hugleiða það yfir helgina með hvaða hætti forseti og félagar hans á forsetastóli beita sér fyrir því að við lendum ekki í gersamlega óviðunandi aðstöðu.
    Fyrr í dag gerðist það að fara átti fram atkvæðagreiðsla um málefni fatlaðra. Það er mjög merkilegur málaflokkur. Þar eru 80 brtt. ( Gripið fram í: 81.) eða 81, látum þessa einu liggja á milli hluta, 80 brtt. er afar óvenjuleg tala. Við vildum vanda afstöðu okkar í þessu máli í þingflokki Alþb. vegna þess að málið er mikilvægt og þar að auki eru í okkar þingflokki ýmsir einstaklingar sem um áraraðir hafa starfað á þessu sviði. Við höfðum engan tíma á þeim hálftíma sem gafst til þingflokksfundahalda til að átta okkur á öllum þessum brtt. Þegar við biðjum síðan um frest fáum við það framan í okkur frá ýmsum stjórnarþingmönnum á göngum þingsins hvort við séum á móti málefnum fatlaðra. Með öðrum orðum er verið að stilla málinu þannig upp að ef þingmenn vilja vanda vinnu sína eru þeir að komast í þá aðstöðu að þeir séu á móti málaflokknum. Ég segi þetta vegna þess að hér eru komnar brtt. upp á rúmar tvær síður, 31 brtt. við frv. um vernd barna og unglinga. ( Gripið fram í: 44 tillögur.) Nú, 44 tillögur við frv. um vernd barna og unglinga. Það má vel vera að þetta séu allt ágætis tillögur. En það verður þá að skapa tíma í þinginu, virðulegi forseti, í dagskrá þingsins á mánudaginn til þess að þingflokkarnir fái tíma til þess að fara yfir brtt. og átta sig á þeim.
    Tilefni þess að ég fór hingað upp er að biðja forseta að forða því eftir helgina að okkar þingflokkur eða aðrir þingflokkar lendi í svipaðri kastþröng og í dag og það verði skapaður tími eftir helgina fyrir þingflokkana til að ræða þessar brtt. og meta í sameiningu hvað þeir gera. Ég vil ekki lenda í því að mínum flokki, Alþb., verði stillt upp við vegg eftir helgina af stjórnarliðinu og kannski opinberlega í fjölmiðlum og sagt í háðstóni: Eruð þið á móti vernd barna og unglinga? Eruð þið á móti fötluðum? Bara af því að við viljum fá tíma í þingflokknum til þess að skoða brtt. efnislega. Við erum alveg tilbúnir að standa að afgreiðslu þessara mála í sjálfu sér. En við viljum fá að vita hvað við erum að gera. Það er þess vegna ósk mín, virðulegi forseti, að hér eftir helgina ( EgJ: Átti ekki Alþb. fulltrúa í þeirri nefnd?) Jú, Alþb. á fulltrúa í nefndunum, virðulegi þm. Egill Jónsson. En þegar þannig er að nefndafundir eru haldnir á þingfundatíma, og hér hafa líklegast verið 5--6 nefndafundir í dag meðan þingfundur hefur staðið, þá gefst ekki tími til að upplýsa þingmenn um það hvað er að gerast. Þess vegna, virðulegi forseti, er ég að biðja um það fyrir hönd míns flokks að það verði skapaður þingflokksfundatími eftir helgina áður en atkvæðagreiðslurnar fara fram. Við erum ekki í þessu færibandakerfi Davíðs Oddssonar, hv. þm. Egill Jónsson. (Gripið fram í.) Stjórnin á flokknum er ágæt, hv. þm., en það sama verður ekki sagt um Sjálfstfl. um þessar mundir. Hv. þm. Egill Jónsson þurfti t.d. að biðja um sérstaka umræðu í þinginu í gær held ég vegna vandræðagangs hjá ríkisstjórninni og Sjálfstfl. varðandi þau mál sem hv. þm. eru kær. Það er merkilegt þegar óstjórnin er orðin slík að hv. þm. Egill Jónsson verður að nota tíma okkar hinna hérna í þinginu vegna innanflokkserfiðleika í Sjálfstfl. Ég held að hann ætti ekki að sitja á fremsta bekk og tala um stjórn á flokkum nema hann hafi sérstakan áhuga á að greiða fyrir umræðum í þinginu og sé að leggja sig fram um að tefja fyrir ríkisstjórninni með þessum hætti. Þetta sé því lúmsk aðferð hjá þingmanninum til að tefja fyrir ríkisstjórninni.
    Mín ósk var einfaldlega einlæg vegna þess að hér eru á ferðinni mikilvægir málaflokkar, málefni fatlaðra og vernd barna og unglinga og mikilvægt að forseti skapi tíma fyrir þingflokksfundi eftir helgina svo við getum undirbúið okkur undir það að taka afstöðu til málanna.