Tilhögun þinghalds

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 17:48:09 (6848)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Mér þykir umhvrh. vera orðinn mengaður af langri þingsetu. Ég er með allmörg dæmi um mál sem eru ýmist komin inn í þingið eða eru til vinnslu í nefndum og ég get tekið allnokkur dæmi. Við erum t.d. í menntmn. að glíma við frv. um fullorðinsfræðslu sem hafði legið mánuðum saman í ráðuneytinu en var skellt fram rétt áður en fresti lauk. Það kom í ljós að sú nefnd sem samdi það frv. hafði hreinlega gefist upp við mjög mikilvægan þátt frv. og leggur það þar með á herðar nefndarinnar að finna lausn á því máli.
    Í efh.- og viðskn. erum við að fást við frv. um greiðslukortastarfsemi og ég verð að segja að mér fannst það alveg makalaust að það var verið að leggja það mál fram í þriðja eða fjórða skipti hér á Alþingi og það hafði ekkert verið litið á það frv. eða sáralitlar breytingar verið gerðar á því þrátt fyrir að mikil þróun hafi átt sér stað í þeim málum. Nú gerist það í morgun, á laugardegi, þegar þrír dagar eru eftir af þinginu að það er verið að dreifa nýju frv. og brtt. upp á 22 síður og við erum að sjálfsögðu ekki byrjuð að vinna í þessu. Ég vona að viðskrh. ætlist ekki til að nefndin afgreiði þetta mál frá sér.
    Sú ályktun sem ég dreg af þessu og af reynslu minni hér í vetur er reyndar að það fari fram ákaflega góð vinna í nefndum, alla vega þar sem ég sit. Fólk vinnur þar eins vel og það getur en undirbúningi sé oft mjög ábótavant. Það er mín reynsla og einkum þó að það skortir samráð við þá aðila sem málið snertir og það veldur því auðvitað að þegar nefndirnar fara að kanna málið og ýmsir annmarkar koma upp þá verða allar þessar brtt. til. En ég held að það væri hægt að spara mikinn tíma ef undirbúningurinn batnar. Ég er alveg viss um að við hæstv. umhvrh. erum sammála um að það þyrfti að vera miklu betri gangur í þingstörfum og að við vildum öll að vinnutími væri með einhverjum eðlilegum hætti. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt. Mér kemur í hug þegar nokkrir þingmenn urðu að bregða sér úr boði umhvrh. eitt kvöldið vegna fundahalda í umhvn. Þau komu úr boðinu og lýstu því að boðsgestir, sem voru Ungverjar, voru aldeilis yfir sig undrandi yfir því að verið var að kalla þingmenn út til fundahalda að kvöldi.
    Ég efast um að vinnubrögð eins og tíðkast hér séu til í nokkru öðru þjóðþingi. Alla vega veit ég að gerð var veruleg bragarbót í danska þinginu fyrir allnokkrum árum vegna mótmæla þingmanna þar við yfirgengilegum vinnutíma. Þetta er auðvitað ekkert annað en skipulagsleysi og skortur á góðum undirbúningi af hálfu ráðuneytanna og annarra þeirra sem vinna að málum og ég held að við getum verulega bætt þetta. Við getum líka bætt það með því að aga okkur betur í vinnubrögðum í þinginu og eins og ég hef áður nefnt þá tel ég að þingflokkarnir eigi að hafa talsmenn í málum. En hins vegar er það náttúrlega engu lagi líkt þegar ríkisstjórnin dembir inn málum sem valda grundvallarbreytingum á íslensku samfélagi. Þá eigum við ekki annarra kosta völ en rísa upp og beita þeim

tækjum sem við höfum sem eru þau auðvitað að reyna að koma viti fyrir ríkisstjórnina.